Óttast heróínfaraldur hér á landi

Óttast heróínfaraldur hér á landi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur mikla áherslu á að leita að týndum börnum og bjarga þeim úr aðstæðum sem þau ráða ekki við. Meðal annars vegna neyslu vímuefna.

Óttast heróínfaraldur hér á landi

Aðgát skal höfð í nærveru sálar | 22. apríl 2018

Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við starfi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins haustið 2014.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við starfi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins haustið 2014. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur mikla áherslu á að leita að týndum börnum og bjarga þeim úr aðstæðum sem þau ráða ekki við. Meðal annars vegna neyslu vímuefna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur mikla áherslu á að leita að týndum börnum og bjarga þeim úr aðstæðum sem þau ráða ekki við. Meðal annars vegna neyslu vímuefna.

Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa leitarbeiðnirnar aldrei verið jafnmargar og undanfarna mánuði.

Um svipað leyti og Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hafði hún frumkvæði að því að setja verkefnið á laggirnar og fékk Guðmund Fylkisson aðalvarðstjóra til þess að taka það að sér.

Foreldrar barna sem hefur verið leitað að segja að ef ekki hefði verið fyrir Guðmund væri óvíst hvort börn þeirra væru enn á lífi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir að hjá embættinu sé sérstaklega horft til barna þegar fíkniefni og neysla lyfja á í hlut.

Sigríður Björk var lögreglustjóri á Suðurnesjum áður en hún tók við embætti lögreglustjóra af Stefáni Eiríkssyni á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að á Suðurnesjum hafi lögreglan auglýst í fjölmiðlum eftir börnum og ungmennum sem höfðu strokið og stungið af til Reykjavíkur.

„Við auglýstum eftir þeim í fjölmiðlum með mynd og nafni …
„Við auglýstum eftir þeim í fjölmiðlum með mynd og nafni og um leið gáfum við upplýsingar um börnin þannig að öll rándýrin í skóginum vissu hver fórnarlömbin þeirra væru.“ AFP

Auglýst var með mynd af barninu og eins og Sigríður orðar það: „Við auglýstum eftir þeim í fjölmiðlum með mynd og nafni og um leið gáfum við upplýsingar um börnin þannig að öll rándýrin í skóginum vissu hver fórnarlömbin þeirra væru. Stundum fundum við börnin of seint og við sáum börn deyja úr neyslu.

Eftir að ég tók við hér á höfuðborgarsvæðinu haustið 2014 hófum við undirbúning að leitarverkefninu og fengum styrk frá velferðarráðherra, Eygló Harðardóttur, en hún trúði mjög á þetta verkefni. Ríkislögreglustjóri var einnig jákvæður fyrir verkefninu. Fyrstu tvö árin fjármagnaði velferðarráðherra stöðu lögreglumanns en síðan þá hefur þetta alfarið verið á okkar vegum,“ segir Sigríður.

Þess var strax sérstaklega gætt að birta ekki myndir í fjölmiðlum af börnum sem verið væri að leita að nema í ýtrustu neyð. Eins að það væri sami lögreglumaðurinn sem sinnti þessu og engum öðrum verkefnum hjá lögreglunni, segir Sigríður.

Að hennar sögn stóðu vonir til þess að þörfin fyrir að hafa sérstakan lögreglumann í að leita að börnum myndi minnka og verkefnið dragast þar af leiðandi saman en því miður þá heldur það áfram að vaxa.

Europol hefur varað við hættunni á heróínfaraldri.
Europol hefur varað við hættunni á heróínfaraldri. AFP

Áhyggjur af mikilli og alvarlegri neyslu vímuefna

„Við höfum verulegar áhyggjur af því hversu mikil og alvarleg neysla vímuefna er hér. Þetta er ekki einfalt mál þar sem efnin eru bæði lögleg og ólögleg. Lögreglan hefur afskipti af ólöglegum efnum en ekki þeim löglegu en við erum samt sem áður í samstarfi við landlæknisembættið um að finna leiðir til að sporna við þessari þróun sem orðið hefur í neyslu lyfja sem vímugjafa og höldum því áfram.

Það sem við óttumst mest er heróínfaraldur líkt og margar þjóðir sem við berum okkur saman við eru að glíma við. Europol hefur varað sérstaklega við þessari þróun í Evrópu þar sem saman fer offramboð og lágt verð sem veldur því að heróín flæðir um allt.

Ég viðurkenni að við höfum mjög miklar áhyggjur af þessari þróun. Enda er hún hraðari en við höfum áður átt að venjast og efnin miklu sterkari. Erfitt getur reynst að finna skjóta lausn á þessum vanda og eins hvaða aðferðum eigi að beita. Á að bjóða upp á skaðaminnkandi meðferð fyrir þá sem eru verst staddir og á að reyna að hlífa neytendum en ná þeim sem eru seljendur? Vandinn er að þetta er ekki svona einfalt þar sem margir neytendur fjármagna eigin neyslu með sölu á fíkniefnum. Ég held að lykillinn séu krakkarnir og að unnið sé með þeim þvert á kerfin.

Sigríður Björk ásamt vinnufélögum og ungum borgurum. Hún telur það …
Sigríður Björk ásamt vinnufélögum og ungum borgurum. Hún telur það afturför að forvarnadeildin hafi verið lögð niður hjá lögreglunni. Ljósmynd/lögreglan

Skólarnir og heilbrigðiskerfið eru að gera marga góða hluti og svo er einnig farið með lögregluna. Ég tel hins vegar að það hafi verið mikil afturför þegar forvarnadeildin var lögð niður hjá lögreglunni. Ég veit að þar eru ekki allir sammála mér, hvorki innanhúss né utan, en ég er sannfærð um að það hafði áhrif þegar lögreglan vann betur með ungmennum og foreldrum þeirra. Við erum að sinna þessum hópi en gætum gert betur ef við hefðum sérstakan mannskap einungis í þetta verkefni.

Ég tel að með auknu samstarfi þvert á kerfi sé hægt að gera svo miklu meira og við þurfum að bjóða börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á því að halda upp á einstaklingsmiðaða aðstoð því líkt og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir þá skiptir hvert einasta barn máli. Við eigum að geta þetta í þessu litla samfélagi sem Ísland er,“ segir Sigríður Björk.

Hún bendir á að ef fólk telur að barn sé í vanda þá sé því skylt að tilkynna barnavernd um það og ef öll kerfin, sem komi að börnum myndu tengjast saman og opnað yrði á heimildir til að deila upplýsingum, væri hægt að vinna með viðkomandi fjölskyldu af fullum þunga.

„Við gátum tekið á barna- og unglingadrykkju og tóbaksreykingum og við eigum að taka þennan bolta líka. Við tökum gríðarlega vel á sumum hlutum en því miður ekki á þessu og það er átakanlegt að lesa viðtöl við foreldra sem lýsa því hvernig börnin þeirra hverfa inn í heim fíkniefna. Við verðum að styðja við fjölskyldur þessara barna og ungmenna. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar.  

Snemmtæk íhlutun er eitt af því sem við verðum að skoða. Því ef það er eitthvað sem lögreglan vill er það að þessi ungmenni endi ekki sem okkar skjólstæðingar og það kannski ítrekað. Við viljum sjá heilbrigt samfélag þar sem þessir hópar fá þá aðstoð og stuðning sem þeir eiga rétt á. Við höfum áhyggjur af því að svo sé ekki,“ segir lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kom með svokallað „Suðurnesjamódel“ í …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kom með svokallað „Suðurnesjamódel“ í heimilisofbeldismálum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt af því sem Sigríður Björk kom með inn í embættið var svokallað „Suðurnesjamódel“ í heimilisofbeldismálum en það miðar að því að bæta rann­sókn­ir í mál­um er varða heim­il­isof­beldi og koma fleiri mál­um í gegn­um rétt­ar­vörslu­kerfið.

„Við sáum að það voru nánast engin mál sem fóru fyrir dómstóla meðal annars vegna þess að það var ekki nægur stuðningur við þolendur ofbeldisins. Ofbeldishringurinn skiptir svo miklu máli í þessum málum. Þar kemur spennan fyrst, svo árás, síðan sáttatími og loks góði tíminn. Yfirleitt var það þannig að lögreglan kom á vettvang þegar árás stóð yfir og stillti til friðar en rannsóknin fór ekki af stað fyrir en löngu síðar eða þegar komið er að góðum tíma á heimilinu. En við megum ekki gleyma því að lögregla er oft ekki kölluð til við fyrsta ofbeldisbrot heldur eftir ítrekað ofbeldi á heimilinu.

Við breyttum þessum málum á þann hátt að allt var rannsakað til þaula strax sem tryggði rannsóknarhagsmuni. Eins bjuggum við til samstarf þvert á kerfin. Barnavernd hafði áður komið inn þar sem börn voru en bættist við stuðningur frá sveitarfélögunum þar sem félagsráðgjafar unnu með þolandanum strax á vettvangi. Þolendur fengu miklu meiri stuðning með þessum hætti og fjöldi tilkynntra mála rauk upp.

Þegar ég kom hingað til starfa var ákveðið að setja þetta „Suðurnesjamódel“ strax á laggirnar í Reykjavík þar sem borgaryfirvöldum var mjög í mun að innleiða módelið hér.

Heimilisofbeldi hafði tilheyrt kynferðisofbeldisdeildinni og voru kannski um 22 slík mál í hverjum mánuði en þegar við tókum upp þetta ferli fóru þau upp í 50 á mánuði og eru núna um 60 talsins í hverjum mánuði. Við sáum að ef við hefðum þessi mál áfram innan kynferðisbrotadeildarinnar þá gerði hún ekkert annað þannig að við færðum þessi brot inn í almennu deildina.

Oft um ítrekað ofbeldi að ræða

Við lítum líka á þetta sem eins konar forvarnarverkefni því með því að grípa strax inn af fullum þunga erum við vonandi að forðast ítrekun. Því sorglegast er að þegar við komum inn er það kannski í sjöunda skiptið sem viðkomandi er beittur ofbeldi,“ segir Sigríður.

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að …
Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis. Vefur Reykjavíkurborgar

Að sögn Sigríðar skiptir miklu máli í þessu samhengi að Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, var sett á laggirnar fyrir rúmu ári en þangað geta meðal annars þeir leitað sem treysta sér ekki á lögreglustöð og fengið atbeina lögreglu þar sem lögreglumaður er staðsettur í Bjarkarhlíð fyrir þá sem vilja. Alls hafa um 500 mál komið þangað. Hún segir að það geti verið margar ástæður fyrir því að fólk leitar ekki til lögreglu, svo sem ótti, slæm reynsla af lögreglu og fleira. Nálgunin er öðruvísi hjá starfsfólki Bjarkarhlíðar og umhverfið öðruvísi. En töluvert af þeim heimilisofbeldismálum sem þangað koma enda hjá lögreglunni í kjölfarið.

„Bretar nota þessa sömu aðferð við að nálgast þolendur ofbeldis og segja að fyrir hvert pund sem þeir verja í þessa nálgun heimilisofbeldismála séu þeir að spara sex pund fyrir samfélagið. Þar er talað um að málafjöldinn sé mjög mikill í upphafi nýs verklags í fimm til sjö ár en síðan fari að draga úr fjölda mála.“

Áður var það þannig að ef almennur lögreglumaður vildi ná …
Áður var það þannig að ef almennur lögreglumaður vildi ná í lögreglustjóra þá þurfti hann að fara í gegnum allt að sex milliliði. Þessu hefur verið breytt. Ljósmynd/lögreglan

Sigríður hefur lagt áherslu á að koma á stjórnunaraðferð sem nefnist þjónandi forysta innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við flöttum út píramídaskipulag sem hér var við lýði enda var það barn síns tíma. Samfélagið þróast svo hratt og við erum með kynslóðir sem líta öðruvísi á málin en áður var gert. Við styttum boðleiðir þannig að það er ekki lengur þannig að ef almennur lögreglumaður vill koma einhverju á framfæri við lögreglustjóra þurfi hann að fara í gegnum allt að sex milliliði. Almenni lögreglumaðurinn er sá sem er í beinum samskiptum við borgarana og á að fá að vinna verkefnin áfram og bera ábyrgð á þeim, en ekki þannig að yfirmenn taki hrósið þegar eitthvað hefur tekist vel. Við skilgreinum okkur ekki lengur sem valdastofnun heldur sem þjónustustofnun og við viljum veita þá þjónustu sem fólk þarf að fá og á rétt á hjá lögreglunni. Þetta er gríðarlega mikil hugarfarsbreyting og það þarf að gefa þessu tíma,“ segir Sigríður.

Hún segir að fyrst um sinn sé lögreglan að reyna að nálgast þá sem eru í viðkvæmustu stöðunni, svo sem þá sem eru þolendur heimilisofbeldis og kynferðisbrota, ungmenni í vanda og þolendur mansals. „Við eigum að þjóna þessum hópum fyrst og fremst út frá þeirra forsendum ekki okkar forsendum,“ segir Sigríður Björk.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ásamt Ágústi Svanssyni aðalvarðstjóra og Jóhanni Karli …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ásamt Ágústi Svanssyni aðalvarðstjóra og Jóhanni Karli Þórissyni aðstoðaryfirlögregluþjóni. Ljósmynd/lögreglan

Undanfarin misseri hefur meira borið á öðrum yfirmönnum lögreglunnar en lögreglustjóra í fjölmiðlum og segir Sigríður það vera lið í þessum breytingum.   

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kemur illa út í starfsandakönnunum og segir Sigríður þar skipta miklu máli vinnuálag og launamál. Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefur unnið að því að auka fjárframlög til lögreglunnar og hún hefur meðal annars fengið aukið fé til ráðstöfunar vegna kynferðisbrotamála.

Lögreglan greinir ákveðna fylgni með klámefni og þeim brotum sem …
Lögreglan greinir ákveðna fylgni með klámefni og þeim brotum sem koma inn á borð kynferðisbrotadeildar. mbl.is/ThinkstockPhotos

Gríðarlegur fjöldi kynferðisbrotamála hefur komið til kasta lögreglunnar undanfarin ár en samt sem áður eru fjölmörg mál sem aldrei enda á borði lögreglunnar segir Sigríður Björk.

„Þessi mál eru ekki að skila sér að fullu til okkar. Við sjáum það á fjölda þeirra sem leita til neyðarmóttökunnar sem og til samtaka eins og Stígamóta og Drekaslóðar. Ég myndi vilja sjá okkur vinna saman í teymum líkt og við gerum í heimilisofbeldismálunum. Þegar tilkynnt er um kynferðisofbeldi yrði málið fullrannsakað strax og þolandinn fengi stuðning um leið frá teymi félagsráðgjafa, sálfræðinga og lögreglu.

Kynferðisbrotin eru ólík öllum öðrum málum því oft er ekki sagt frá ofbeldinu fyrr en löngu seinna. Hér er líka mikilvægt að vinna með ungu fólki og við höfum áhyggjur af mikilli klámnotkun og ólíkum væntingum kynjanna þegar kemur að kynlífi, hvað sé eðlilegt og hvað ekki. Ég held að við eigum að stíga hér inn sem samfélag og ég fagna mjög skipan nefndar á vegum forsætisráðherra sem á að skoða kynferðisofbeldismál og stöðu þolenda.“

Niðurstaða innri at­hug­un­ar hjá lög­reglu er á þá leið að …
Niðurstaða innri at­hug­un­ar hjá lög­reglu er á þá leið að al­mennt hafi vinna ekki verið í sam­ræmi við það verklag sem tíðkast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsfólk lögreglunnar telur sig sjá og greina ákveðna fylgni með klámefni og þeim brotum sem koma inn á okkar borð. Í einhverjum tilvikum er verið að líkja eftir því sem fólk sér í klámmyndum og telur að sé eðlilegt.

„Kannski erum við ekki að ræða nægjanlega vel við unga stráka um þessi mál því við vitum ekki hvað þeir eru að horfa á. Jafnvel stúlkur og drengir sem gera sér ekki grein fyrir að þetta er ekki eðlileg framkoma í þeirra garð og að enginn eigi að sætta sig við að verða fyrir slíkri framkomu. Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessum mikla fjölda sem kemur til okkar og enn fremur þessum mikla fjölda sem ekki kemur til okkar. Þetta er mjög alvarlegt því brot af þessu tagi er eitthvað sem situr í sálinni.

Ég var einu sinni á þeirri skoðun að það ætti að tilkynna allt til lögreglu eins og með önnur brot en mér hefur verið leitt fyrir sjónir að hlutirnir séu ekki svo einfaldir. Miklu máli skiptir að þolandinn hafi það vald á aðstæðum að geta stjórnað því hvort mál fari inn í dómskerfið eða ekki og við verðum að sjálfsögðu að virða það og mæta þolandanum á hans forsendum.

Við sjáum fram á að það er mikið að gerast í þessum málaflokki sem er svo samfélagslega mikilvægur fyrir okkur. Grundvöllur heilbrigðs samfélags að hér viðgangist ekki ofbeldi sem ekki nýtur stuðnings réttarkerfisins. Við myndum gjarnan vilja fara sömu leið og lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra hefur tekið upp, það að veita þolendum strax sálfræðiþjónustu og að útskýra fyrir þolendum á mannamáli hvers vegna mál þeirra eru felld niður. Það er að ekki sé ákært. En eins og málaálagið er hjá okkur núna getum við því miður ekki bætt þessu við okkar starf,“ segir Sigríður.

Unnið er að fjölgun starfsmanna í kynferðisbrotadeildinni og hafa alvarleg ofbeldisbrot verið tekin þaðan út þannig að þeir sem rannsaka kynferðisbrot koma ekki að öðrum málum.

„En þetta dugar því miður ekki til. Hér myndaðist kúfur sem ekki náðist að vinna niður og það eru allt of mörg mál í deildinni. Því þó svo við séum ekki búin að þróa fyllilega hvernig þjónustu þolendur kynferðisbrota eru að fá hjá lögreglu þá vitum við það alla vega að þeir vilja skjóta þjónustu. Það er klárlega eitthvað sem við getum gert miklu betur,“ segir Sigríður.

Unnið er að því að efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Unnið er að því að efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í lok janú­ar var greint frá því í fjöl­miðlum að stuðnings­full­trúi sem starfaði á heim­ili Barna­vernd­ar Reykja­vík­ur hefði verið hand­tek­inn grunaður um gróf kyn­ferðis­brot gegn dreng þegar hann var 8 til 14 ára gam­all. Maður­inn er á fimm­tugs­aldri og hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi frá 18. janú­ar þegar hann var hand­tek­inn.

Fljót­lega kom í ljós að mik­il töf hafði orðið á mál­inu í meðför­um lög­regl­unn­ar og hóf lög­regl­an, und­ir for­ystu Karls Stein­ars Vals­son­ar yf­ir­lög­regluþjóns, innri skoðun á ferli og rann­sókn máls­ins. Var niðurstaðan kynnt á blaðamanna­fundi 12. febrúar og skýrsl­an jafn­framt birt.

Í skýrsl­unni er verklag lög­regl­unn­ar gagn­rýnt, meðal ann­ars að við frum­grein­ingu hafi ekki verið at­hugað strax með starfs­vett­vang manns­ins í ljósi þeirra ásak­ana sem komi fram í kær­unni. Er aðkoma stjórn­enda sögð hafa verið ómark­viss, verk­skipt­ing óljós og aðhald um fram­vindu máls­ins ekki viðun­andi.

Niðurstaða innri at­hug­un­ar hjá lög­reglu er á þá leið að al­mennt hafi vinna ekki verið í sam­ræmi við það verklag sem tíðkast í mál­um sem þess­um. Karl Stein­ar sagði þegar skýrslan var kynnt að ljóst væri að mis­tök hefðu verið gerð í upp­hafi og fyr­ir vikið hafi málið ekki fengið þá at­hygli sem það hefði átt að fá. Skrif­leg verk­leg for­gangs­röðun hafi ekki verið fyr­ir­liggj­andi og það hafi ýtt und­ir að ekki var gripið til nauðsyn­legra aðgerða. Aðkoma stjórn­enda hafi verið ómark­viss.

„Það er okk­ar niðurstaða að ráðast þurfi í um­tals­verðar breyt­ing­ar á skipu­lagi deild­ar­inn­ar,“ sagði Karl Stein­ar og sagði að stefnt væri að því að styrkja hana sam­hliða auk­inni fjár­veit­ingu. Eins er lagt til að verklag í kyn­ferðis­brota­mál­um verði sam­ræmt á landsvísu.

Til skoðunar hjá ríkissaksóknara

Sigríður Björk segir að þetta mál og þessi mistök sem gerð voru séu mikið áfall enda á hér í hlut fólk sem er í viðkvæmustu stöðunni.

„Fólkið sem við eigum að vera sinna best og gæta. Við fórum strax í að fá innri athugun og engum var hlíft í þeirri rannsókn. Hlutirnir voru skoðaðir og við greindum frá þeim strax og engin tilraun gerð til þess að leyna því hversu alvarlegt það var. Jafnframt báðumst við afsökunar og verklagi var breytt hjá lögreglunni til þess að tryggja það að þetta geti ekki endurtekið sig.

Þetta mál er til skoðunar hjá ríkissaksóknara og eins hjá nefnd sem hefur eftirlit með störfum lögreglu og er því hvergi nærri lokið enda mikilvægt að rannsaka hvernig þetta gat gerst.

Eins og oft vill verða þegar um mistök er að ræða þá eru þetta nokkrir þættir sem verða til þess að málið fór á þennan veg,“ segir Sigríður.

Engir starfsmenn lögreglunnar voru áminntir fyrir sína aðild að málinu og segir Sigríður Björk að ekki hafi verið talin ástæða til. Niðurstaða ytri aðila gæti breytt því.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að reyna að nálgast þá sem …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að reyna að nálgast þá sem eru í viðkvæmustu stöðunni. Svo sem þolendur heimilisofbeldis og kynferðisbrota. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fólk hefur aftur á móti tekið þetta mjög nærri sér og þetta sýnir að það sem við höfðum talað um í töluverðan tíma að gera, þ.e að búa til rannsóknarteymi í hverju máli, hefði getað fyrirbyggt að svona gæti gerst. Við höfðum ekki haft bolmagn til breytinga en með aukinni fjárveitingu verður nú unnt að vinna mál sem koma til kynferðisbrotadeildarinnar í teymisvinnu. Með því sé tryggt að það sé aldrei einn starfsmaður með eitt mál og ef starfsmaður fer í veikindaleyfi þá detta mál ekki á milli skips og bryggju. Eins sjá fleiri augu betur en færri. Við vitum að það er sama hversu góðar verklagsreglur eru og gátlistar þá er raunveruleikinn sá að hann fellur ekki alltaf inn í gátlista,“ segir Sigríður Björk.

Hún segir að #Me too-byltingin sýni að það eru fleiri viðkvæmir hópar í samfélaginu en áður var talið og hún vonist til þess að ekki komi bakslag í þá réttindabaráttu sem hafi farið af stað. Sem dæmi má nefna að hjá lögreglunni  kom fram í rannsókn sem gerð var árið 2013 að þriðja hver kona verður fyrir kynferðislegri áreitni í starfi.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir fær hér viðurkenningu frá Bandalagi kvenna í …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir fær hér viðurkenningu frá Bandalagi kvenna í Reykjavík fyrir störf sín. Ljósmynd/lögreglan

Fagráð hafi verið skipað í kjölfarið en því miður hafa ótrúlega fá mál farið þangað, að sögn Sigríðar. Unnið sé að því að rannsaka þetta enn frekar meðal annars með djúpviðtölum við starfsmenn innan lögreglunnar og segist hún vonast til þess að þetta skili bættu starfsumhverfi.

Engin kona yfirlögregluþjónn og engin í sérsveitinni

„Ég er mikill talsmaður þess að fá fleiri konur inn í lögregluna og að þær eigi sömu möguleika og karlar á framgang í starfi. Því þrátt fyrir að við séum nokkrar konur lögreglustjórar þá er engin kona yfirlögregluþjónn á Íslandi og hefur aldrei verið. Þá starfar engin kona með sérsveitinni.

Þetta snýst ekki um konur kvennanna vegna heldur einfaldlega að við erum að þjóna samfélagi þar sem helmingur samfélagsins eru konur. Ekki flóknara en það. Þetta snýst um jafnrétti og heilsusamlegra vinnuumhverfi fyrir bæði kynin. Eins eigum við að fá fólk af erlendum uppruna inn í lögregluna enda á lögreglan að endurspegla samfélagið sem heild ekki bara ákveðna hluta þess,“ segir Sigríður Björk.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Eggert Jóhannesson

Aðeins brot af verkefnum lögreglustjórans rúmast í viðtali sem þessu og viðurkennir Sigríður Björk að álagið sé mikið og minni oft á þann tíma sem hún var skattstjóri á Vestfjörðum forðum daga (1996-2002).

„Sá sem ég tók við af hafði líkt og ég starfað áður hjá embætti ríkisskattstjóra. Þegar ég tók við af honum sagði hann mér að þetta væri allt öðruvísi en það sem ég ætti að venjast. Starfið hjá ríkisskattstjóra er eins og klassísk tónlist þar sem skiptast á hraðir kaflar og ljúfir millikaflar. Að vera skattstjóri á Vestfjörðum væri eins og að vera í þungarokki allan tímann. Þetta reyndist rétt hjá honum og ég er komin aftur í þungarokkið hér sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigríður Björk og hlær.

mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is