„Æðislegt að vera í Frakklandi“

Borgin mín | 10. apríl 2021

„Æðislegt að vera í Frakklandi“

Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn heillaðist af Frakklandi þegar hún var unglingur. Hún hefur búið í Nice og Montpellier en er nú heima á Íslandi vegna heimsfaraldursins. Hún stefnir á að halda áfram í námi í Montpellier í haust þar sem rólegur lífstaktur tekur á móti henni. 

„Æðislegt að vera í Frakklandi“

Borgin mín | 10. apríl 2021

Unnur Sara á Place de la comédie í Montpellier.
Unnur Sara á Place de la comédie í Montpellier. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn heillaðist af Frakklandi þegar hún var unglingur. Hún hefur búið í Nice og Montpellier en er nú heima á Íslandi vegna heimsfaraldursins. Hún stefnir á að halda áfram í námi í Montpellier í haust þar sem rólegur lífstaktur tekur á móti henni. 

Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn heillaðist af Frakklandi þegar hún var unglingur. Hún hefur búið í Nice og Montpellier en er nú heima á Íslandi vegna heimsfaraldursins. Hún stefnir á að halda áfram í námi í Montpellier í haust þar sem rólegur lífstaktur tekur á móti henni. 

„Til að byrja með var það tónlistin sem heillaði mig. Ég byrjaði að hlusta á Serge Gainsbourg, France Gall, Françoise Hardy og fleiri þegar ég var 14 ára og reyndi að syngja með lögunum. Ég gleymi ekki fyrsta skiptinu sem ég fór þangað nokkrum árum síðar og fékk alveg fiðring í magann þegar ég sá fyrsta auglýsingaskiltið á frönsku. Síðan þá hef ég alltaf fundið þessa sömu góðu tilfinningu þegar ég er þar sem ég get ekki lýst betur í orðum. Það er bara æðislegt að vera í Frakklandi,“ segir Unnur Sara um ást sína á Frakklandi. 

„Ég dvaldi í Nice mestalla vorönnina 2019 þar sem ég var að njóta, fara í smá frönskuskóla og ferðast um Frakkland, Ítalíu og Spán. Þá var ég nýbúin að gefa út plötuna „Unnur Sara syngur Gainsbourg“ og fannst vera orðið löngu tímabært að ég myndi prófa að búa þar, sjá hvernig það væri fyrir mig og taka framförum í að tjá mig á tungumálinu. Þessi dvöl stóð undir væntingum og meira til þannig að í kjölfarið ákvað ég að skrá mig í háskólanám í sviðslistum í Montpellier. Þar var ég í tvo mánuði síðasta haust,“ segir Unnur Sara sem kom heim vegna kórónuveirufaraldursins en stefnir á að halda áfram í haust. 

Unnur Sara við La promenade des Anglais í Nice. Unnur …
Unnur Sara við La promenade des Anglais í Nice. Unnur Sara lærði frönsku í Nice. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsborg í Frakklandi?

„Já, Nice á alltaf eftir að eiga sérstakan stað í hjarta mér enda fyrsta franska borgin sem ég prófaði að búa í og sá staður sem ég hef fengið tækifæri til að kynnast best.“

Er mikill munur á Montpellier og Nice?

„Já, Nice er meiri ferðamannaborg og algengt að fólk á eftirlaunaaldri flytji þangað vegna veðurblíðunnar og kyrrðarinnar. Montpellier er hins vegar ein af bestu borgunum fyrir háskólanema, svo það er töluvert meira af ungu fólki sem býr þar og blómlegra menningarlíf sem ég hlakka til að fá tækifæri til að upplifa almennilega einn daginn.“

Er eitthvað við franska menningu sem heillar sérstaklega?

„Sagan heillar mig og ég er þakklát fyrir að fá innsýn í hana í gegnum námið. Mér finnst til dæmis mjög gaman að læra um sögu Occitaine-héraðsins, trúbadorana sem komu upphaflega þaðan, þróun leikhússins og fleira. Ég elska að rölta um, skoða byggingar og velta fyrir mér á hvaða tímabili þær eru byggðar og hvaða sögu þær búa yfir. Svo er bara eitthvað svo fallegur og heilbrigður lífstaktur, allavega þar sem ég hef verið í Suður-Frakklandi. Fólk gefur sér tíma hvert fyrir annað og kann að njóta. Það virðist ekki vera eitthvað til að monta sig yfir að hafa „of mikið“ að gera.“

Mikil saga fylgir mörgum byggingum í Frakklandi. Hér er Unnur …
Mikil saga fylgir mörgum byggingum í Frakklandi. Hér er Unnur Sara við Carcassonne-kastalann í bænum Carcassonne. Ljósmynd/Aðsend

Stundum er talað um að Frakkar séu dónalegir við útlendinga sem tala ekki frönsku. Unnur Sara segist oft vera spurð út í þessa mýtu.  

„Mér finnst svolítið áhugavert að þegar ég flutti til Bretlands fannst öllum það bara frábært, en með Frakkland fæ ég einmitt oft þessa spurningu. Ég held það sé nú alveg hægt að finna fýlupoka hvar sem maður er staddur í heiminum ef maður er opinn fyrir því. En mín reynsla af Frökkum er að þeir eru einstaklega indælir, opnir, hjálpsamir einstaklingar og þolinmóðir gagnvart útlendingum sem eru að læra tungumálið og koma sér inn í samfélagið. Að því sögðu eru þeir líkir okkur Íslendingunum með það að þeir eru stoltir af tungumálinu sínu og menningunni sinni. Það er því alveg tilvalið að geta sagt nokkrar setningar á frönsku þegar maður ætlar að heimsækja Frakkland.“

Hvernig var að þurfa að fara heim vegna Covid? 

„Það er auðvitað alveg ömurlegt þegar maður er búinn að vinna mjög lengi að markmiði af þessum toga að tímasetningin lendi svo akkúrat í heimsfaraldri. Á sama tíma er ég virkilega þakklát fyrir þau miklu forréttindi að vera íslensk, eiga gott bakland hér og hafa nokkuð auðveldlega getað snúið aftur hingað. Eftir að hafa verið í Frakklandi og kynnst sóttvarnaaðgerðum þar upplifi ég svo miklu meiri öryggistilfinningu hér. Við höfum þríeykið okkar, alla upplýsingafundina og hið mikla félagslega aðhald sem við veitum hvert öðru í faraldrinum sem maður heyrir ekki um að sé í gangi í öðrum löndum. Ég held að þetta séu einkenni þess að búa í litlu samfélagi. Við erum svo meðvituð um að þetta gæti alltaf verið einhver sem við þekkjum persónulega eða tengist okkur á einhvern hátt sem sýkist næst, það hefur vafalaust haft áhrif á okkar góða árangur gegn veirunni! Ég fór heim í byrjun nóvember þegar skall á algjört útgöngubann. Það var fyrirhugað að fara út aftur í janúar en þar sem ástandið hefur lítið skánað verð ég hér fram á næsta haust og vona að ég fái að hefja staðnám í sviðslistanáminu mínu í Paul Valèry-háskólanum í september. Þangað til er ég á Íslandi að syngja, gefa út þriðju plötuna mína í sumar og halda Spotify-námskeið og einkatíma fyrir tónlistarfólk.“

Hvað er það fyrsta sem þú ætlar að gera þegar þú kemst til Frakklands aftur?

„Skreppa á ströndina á Palavas les flots, heimsækja uppáhaldssjávarþorpið mitt sem heitir Sète og er skammt frá Montpellier, fá mér mjólkurhristing á Amandeous og kíkja í „happy hour“ á Comédien-torginu í Montpellier.“

Hægt er að fylgjast með Unni Söru á Instagram. 

mbl.is