„Lífið með atvinnumanni getur verið svolítil óvissa“

Borgin mín | 5. nóvember 2023

„Lífið með atvinnumanni getur verið svolítil óvissa“

Hin 22 ára gamla Freyja Lind Jónsdóttir er uppalin á Álftanesi og hafði búið þar alla tíð, en fyrir rúmum tveimur árum kynntist hún kærasta sínum Sveini Jóhannssyni sem er atvinnumaður í handbolta og flutti í kjölfarið til Danmerkur með honum þar sem hann spilaði með Skjern. Í janúar síðastliðnum fluttu þau svo yfir til Þýskalands þar sem Sveinn byrjaði að spila með GWD Minden. 

„Lífið með atvinnumanni getur verið svolítil óvissa“

Borgin mín | 5. nóvember 2023

Freyja Lind Jónsdóttir er búsett í bænum Minden í Þýskalandi.
Freyja Lind Jónsdóttir er búsett í bænum Minden í Þýskalandi.

Hin 22 ára gamla Freyja Lind Jónsdóttir er uppalin á Álftanesi og hafði búið þar alla tíð, en fyrir rúmum tveimur árum kynntist hún kærasta sínum Sveini Jóhannssyni sem er atvinnumaður í handbolta og flutti í kjölfarið til Danmerkur með honum þar sem hann spilaði með Skjern. Í janúar síðastliðnum fluttu þau svo yfir til Þýskalands þar sem Sveinn byrjaði að spila með GWD Minden. 

Hin 22 ára gamla Freyja Lind Jónsdóttir er uppalin á Álftanesi og hafði búið þar alla tíð, en fyrir rúmum tveimur árum kynntist hún kærasta sínum Sveini Jóhannssyni sem er atvinnumaður í handbolta og flutti í kjölfarið til Danmerkur með honum þar sem hann spilaði með Skjern. Í janúar síðastliðnum fluttu þau svo yfir til Þýskalands þar sem Sveinn byrjaði að spila með GWD Minden. 

Freyja útskrifaðist úr Flensborgarskóla árið 2021 og ákvað að vinna í eitt ár áður en hún fór í háskóla. Í dag stundar hún fjarnám við Háskóla Íslands og tekur að sér lítil verkefni á samfélagsmiðlum fyrir fyrirtæki samhliða náminu. 

Þótt Freyja og Sveinn hafi ekki búið lengi í Þýskalandi hafa þau komið sér vel fyrir í Minden sem er 80 þúsund manna bær í norðvestur Þýskalandi. Freyja hefur mikinn áhuga á heilsu og hreyfingu og er dugleg að stunda líkamsrækt og elda hollan og góðan mat. „Mín helstu áhugamál eru hreyfing, að ferðast og upplifa nýja staði, taka fallegar ljósmyndir, búa til efni fyrir mína miðla og svo má ekki gleyma tísku og hönnun,“ segir Freyja. 

Freyja hefur mikinn áhuga á hreyfingu og stundar líkamsrækt á …
Freyja hefur mikinn áhuga á hreyfingu og stundar líkamsrækt á hverjum degi.

„Sveinn var ekkert að flækja hlutina ... “

Freyja og Sveinn kynntust haustið 2021 á spilakvöldi hjá sameiginlegum vinum. Freyja segir Svein ekkert hafa verið að flækja hlutina og hafi í kjölfar spilakvöldsins boðið henni í bíó. „Á þessum tímapunkti var Sveinn að spila með liði í Danmörku og ég var dugleg að fara út að heimsækja hann þar. Hann kom svo aðeins heim til Íslands áður en við fluttum svo saman aftur út, en þar tók við okkur nýtt félagslið í Danmörku sem Sveinn spilaði fyrir,“ útskýrir Freyja.

„Við áttum heima í Skjern sem er lítill bær staðsettur á vesturströnd Jótlands þegar Sveinn spilaði með danska úrvalsdeildarliðinu Skjern. Okkur leið mjög vel í Danmörku og ég var mjög fljót að aðlagast umhverfinu og þeirri menningu. Við vorum mjög dugleg að taka lestina til Köben og eyddum ófáum helgum þar,“ segir Freyja. 

„Köben er mín uppáhaldsborg því þar er svo margt sem heillar mig. Það var mikill kostur við Danmörku hve auðvelt var að plata vini og fjölskyldu í heimsókn, enda er erfitt að segja nei við ferð til Danmerkur,“ bætir hún við. 

Sveinn og Freyja á handboltaleik.
Sveinn og Freyja á handboltaleik.

Hvenær og af hverju fluttir þú til Þýskalands?

„Í janúar á þessu ári fluttum við til Minden í Þýskalandi. Sveini bauðst samningur við félagsliðið GWD Minden sem varð til þess að við tókum stefnuna á Þýskaland.“

Hvað heillaði þig við Þýskaland þegar þú fluttir þangað?

„Ég verð að viðurkenna að ég vissi eiginlega ekki mikið við hverju ég ætti að búast en það sem heillaði mig strax og mest voru þessir litlu fallegu bæir út um allt og Minden er einn af þeim. Minden er umvafinn fallegri náttúru og í bænum sjálfum er mikið af gömlum og sögulegum byggingum.

Þótt ég segi að þetta sé lítill bær hér í Þýskalandi þá er þetta töluvert stærra en maður er vanur heima. Ég er alltaf að uppgötva nýjar gönguleiðir, ný kaffihús og fallega staði hér í kring. Mér finnst spennandi að kynnast þýskri menningu sem mér finnst frekar frábrugðin okkar og ég hlakka til aðlagast betur þeirra kúltúr.“

Freyja á fallegu kaffihúsi, en hún er sífellt að uppgötva …
Freyja á fallegu kaffihúsi, en hún er sífellt að uppgötva sjarmerandi staði í Minden.

Hvaða hverfi í Minden eru í uppáhaldi hjá þér?

„Ég myndi segja að ég eigi mér tvö uppáhalds hverfi, en það er hverfið sem ég bý í og auðvitað miðbærinn. Hverfið okkar er staðsett rétt fyrir ofan stóru Weser-ánna, þar er algjör náttúruperla allt í kring með fjölbreyttum gönguleiðum.

Í miðbænum er aðeins meira líf og fjör, sérstaklega á sólríkum dögum á sumrin. Það er algjör snilld að geta setið úti og borðað. Mér finnst líka virkilega gaman og huggulegt að rölta um eldri hluta bæjarins en það er almennt mjög góð stemning þar.“

Miðbærinn í Minden er í miklu uppáhaldi hjá Freyju.
Miðbærinn í Minden er í miklu uppáhaldi hjá Freyju.

Hefur þú náð að ferðast eitthvað um Þýskaland frá því þú fluttir þangað?

„Já ég hef farið ýmislegt hér í kring en ég á helling eftir. Ég er mjög hrifin af Hannover sem næsta stóra borg við Minden, en þar búa um 538 þúsund manns. Þangað er nokkuð stutt að fara og mjög næs að eyða deginum þar í bæjarrölti um gamla og nýja hlutann í búðum og huggulegheitum. Ég er einnig dugleg að kíkja í ýmsa fallega litla smábæi hér í kring.“

Freyja hefur verið dugleg að ferðast í kringum Minden en …
Freyja hefur verið dugleg að ferðast í kringum Minden en segist enn eiga eftir að heimsækja marga spennandi staði.

„Svo er alltaf gaman að koma til Berlínar og vera túristi þar. Það er svo mikið af fallegum og sögulegum stöðum að sjá og söfnum sem ég hef mjög gaman af að skoða. Matarmenningin í Berlín er líka mun betri en annars staðar í Þýskalandi að mínu mati.“

Berlín er í sérstöku uppáhaldi hjá Freyju, enda töfrandi borg.
Berlín er í sérstöku uppáhaldi hjá Freyju, enda töfrandi borg.

Hvað er ómissandi að sjá í Þýskalandi?

Ég myndi klárlega segja Berlín. En svo er líka æðislegt að vera með bíl, keyra um sveitirnar og stoppað í minni borgum og sætum bæjum sem maður hafði ekki hugmynd um að væru til. Þýskaland er svo stórt og hefur upp á svo margt að bjóða – ríkulega sögu og fallegar borgir og bæi ásamt öllum stórborgum sem maður heyrir meira um. Svo er náttúran líka ofsalega falleg og fjölbreytt og virkilega gaman að rölta um sveitirnar meðal akranna sem breytast mörgum sinnum að sumri eftir því hver uppskeran er. Þannig breyta sveitirnar t.d. mörgum sinnum um lit yfir sumarið þannig að það umhverfið er síbreytilegt.“

Freyja lýsir mikilli náttúrufegurð í Þýskalandi.
Freyja lýsir mikilli náttúrufegurð í Þýskalandi.

„Bückeburg er meðal annars einn mjög sætur bær í nokkurra mínútna fjarlægð frá okkur í Minden. Þar er Bückeburg-kastalinn sem er opinn almenningi að hluta til að skoða og stór fallegur garður sem hægt er að rölta um. Þar er einnig eini konunglegi reiðskóli Þýskalands og hægt er að skoða hesthúsin, hestana og ýmsar minjar sem tengjast þeim og reiðmennsku frá fornu fari ásamt því að boðið er upp á reiðsýningu. Það er svo líka hægt að setjast niður á tveimur stöðum og fá sér góða hressingu.

Mér hefur einnig verið bent á borgina Dredsten og svo veit ég að suður Þýskaland hefur upp á gríðarlega margt fallegt að bjóða en ég stefni á að fara þangað og ýmislegt annað við tækifæri, það er nóg eftir að sjá.“

Freyja nefnir Bückeburg og segir bæinn afar sjarmerandi.
Freyja nefnir Bückeburg og segir bæinn afar sjarmerandi.

Hvernig er draumadagurinn þinn í Minden?

„Draumadagurinn minn væri að vakna snemma, taka bíltúr og uppgötva nýja áhugaverða staði hér í kring. Rölta um og skoða í góðum félagsskap og setjast svo á huggulegt kaffihús í kaffi eða finna girnilegan stað til þess að borða á.“

Freyja veit fátt betra en að ferðast og uppgötva nýja …
Freyja veit fátt betra en að ferðast og uppgötva nýja staði.

Hvað er það besta við að búa í Minden?

„Eitt af því besta við að búa hér er að fá að upplifa og prófa að búa í nýju landi, kynnast nýju fólki og takast á við allskonar áskoranir og þroskinn sem fylgir því. Svo er það auðvitað veðrið líka, að fá þetta langa og góða sumar. Yfir höfuð er veðrið milt og gott en maður er ekki að fást við við þessi slagveður eins og gengur og gerist heima á Íslandi.“

Veðurblíðan heillar Freyju mikið, en hún segir veðrið milt og …
Veðurblíðan heillar Freyju mikið, en hún segir veðrið milt og notalegt í Minden.

En erfiðast?

„Það sem mér finnst einna helst erfiðast við að búa hérna úti er að kunna ekki tungumálið nógu vel því flestir Þjóðverjar eru alls ekki flinkir í enskunni eða eru mjög feimnir að tala hana sem gerir samskiptin erfiðari. Það er mjög hamlandi í mörgum aðstæðum og samskiptum.

Sem dæmi eru allir fjölmiðlar hér aðeins á þýsku sem og öll upplýsingagjöf, en ég er á fullu í þýskunámi til að rifja upp og reyna ná betri tökum á tungumálinu. Það að ná betri tökum á tungumálinu mun gera hlutina mun þægilegri og opna fleiri dyr fyrir mér hérna úti.

Annars hefur það komið mjög á óvart hvað flest allir hér eru opnir og mjög almennilegir og hlýlegir í viðmóti, þjóðverjar eru mun vinalegri en þessi ímynd sem margir eru með.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Uppáhalds „fíni“ veitingastaðurinn minn hérna í Minden er Cosimo vini, hann er ítalskur, mjög huggulegur og býður upp á góðan matseðil.

En annars langar mig líka að nefna tvo aðra mjög góða staði en það er mexíkóski staðurinn Encilada og svo Scarabeo Minden. Báðir mjög flottir staðir með góða stemningu og ekki er maturinn af verri endanum.“

En kaffihús?

„Kaffihúsið Kofi stendur mikið upp úr. Alltaf huggulegt að kíkja þangað í einn bolla og með því.“

Freyja hefur þegar fundið sér uppáhalds veitingastaði og kaffihús í …
Freyja hefur þegar fundið sér uppáhalds veitingastaði og kaffihús í Minden.

Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi í Minden?

„Ég vakna snemma og fæ mér morgunmat og kaffi með Sveini. Við förum svo saman af stað inn í daginn, ég skelli mér í ræktina og á sama tíma mætir hann á sína fyrstu æfingu. Svo á heimleiðinni verslum við í matinn ef þörf er á og gerum okkur svo hádegismat saman heima.“

„Eftir hádegi sinni ég svo skólanum og er að vinna í verkefnum. Seinnipartinn fer ég svo yfirleitt að græja og gera aðeins hérna heima, taka úr vél og svona þetta hefðbundna sem fylgir heimilinu. Þegar líða fer að kvöldi og þá fer ég að elda kvöldmatinn og þá er Sveinn yfirleitt að koma heim af seinni æfingu hjá sér um kvöldmatarleytið svo hann kemur heim í heitan og góðan kvöldmat, annars höfum við mjög gaman af því að elda saman þegar við náum að gera það. Um kvöldið er það svo bara kósíheit og horfum við á eitthvað næs þangað til við förum að græja okkur fyrir háttinn.“

Freyju þykir gott að byrja daginn í ræktinni.
Freyju þykir gott að byrja daginn í ræktinni.

Hvað er framundan hjá þér?

„Það sem er framundan hjá mér er að halda áfram í náminu mínu. Annað er svona frekar óljóst en það er það sem einkennir svolítið líf atvinnumanna í íþróttum erlendis. Ég veit ekki alveg hvar ég verð eftir ár, hvort ég verði ennþá búsett í Minden eða hvort ég verð flutt á annan stað í Þýskalandi eða komin í allt annað land.“

„Lífið með atvinnumanni getur verið svolítil óvissa þar sem maður veit ekki alveg hvað tekur við næst. En það er samt sem áður spennandi og algjört ævintýri sem við njótum á meðan við getum og erum við mjög þakklát fyrir að lifa þessum lífsstíl. Ég held áfram í því hlutverki að styðja og hvetja kærastann minn áfram í hans feril og sjá hann ná langt. En annars held ég líka áfram mínu striki, að búa mér til mína rútínu hvar sem ég er og einbeita mér að náminu mínu. Elta litlu og stóru drauma mína, njóta þess að lifa í mómentinu og að vera til.“

Freyja er spennt fyrir komandi tímum með Sveini.
Freyja er spennt fyrir komandi tímum með Sveini.
mbl.is