Flutti með dóttur sína, tvo ketti og fimm ferðatöskur

Danmörk | 10. desember 2023

Flutti með dóttur sína, tvo ketti og fimm ferðatöskur

Það var alltaf draumur hjá Anitu Lind Björnsdóttur að flytja erlendis. Í fyrra kýldi hún á það og flutti með dóttur sinni til Kolding í Danmörku. Hún kann vel við lífið á Jótlandi þar sem vel er hugsað um fjölskyldur og matarkarfan er töluvert ódýrari en á Íslandi.

Flutti með dóttur sína, tvo ketti og fimm ferðatöskur

Danmörk | 10. desember 2023

Anita Lind Björnsdóttir segir lífið ljúft í Danmörku.
Anita Lind Björnsdóttir segir lífið ljúft í Danmörku.

Það var alltaf draumur hjá Anitu Lind Björnsdóttur að flytja erlendis. Í fyrra kýldi hún á það og flutti með dóttur sinni til Kolding í Danmörku. Hún kann vel við lífið á Jótlandi þar sem vel er hugsað um fjölskyldur og matarkarfan er töluvert ódýrari en á Íslandi.

Það var alltaf draumur hjá Anitu Lind Björnsdóttur að flytja erlendis. Í fyrra kýldi hún á það og flutti með dóttur sinni til Kolding í Danmörku. Hún kann vel við lífið á Jótlandi þar sem vel er hugsað um fjölskyldur og matarkarfan er töluvert ódýrari en á Íslandi.

„Það hefur alltaf togað í mig að flytja. Mig langaði að breyta til. Ég var ekki nógu ánægð með mína stöðu og gerði eitthvað í því. Ég skellti mér bara með dóttur mína, tvo ketti og fimm ferðatöskur. Ég hafði ekki einu sinni komið til Kolding áður,“ segir Anita. 

Fékk draumavinnu

„Ég er að vinna núna og er í tungumálaskóla að læra dönsku. Ég var náttúrulega sofandi í dönsku í skóla en ég finn að ég með forskot þegar kemur að því að lesa dönskuna en maður hafði kannski átt að fylgjast betur með þegar maður var yngri,” segir Anita. Hún er ánægð með tungumálaskólann en þar lærir hún líka um danska menningu og gildi, meðal annars þau sem snúa að því að sýna hógværð.

Anita segir mikilvægt að geta talað dönsku á vinnumarkaði á Jótlandi. „Ég er að vinna á hundahóteli sem er æðislegt. Fyrir mörgum árum ætlaði ég að opna hundahótel. Mér finnst geggjað að vinna með dýrum. Ég upplifi mikla hamingju þegar ég er að vinna með hundum.“

Anita Lind flutti ásamt dóttur sinni og köttunum.
Anita Lind flutti ásamt dóttur sinni og köttunum.

Maturinn er töluvert ódýrari

Anita finnur fyrir því að það er margt ódýrara í Danmörku, en leigan er til dæmis ódýrari og það er matarkarfan einnig. „Fyrst keypti ég inn í vitlausum búðum, í dýrari búðunum, en ég fattaði það ekki af því mér fannst allt svo ódýrt. Svo fór ég að setja mig betur inn í þetta. Svo eru regluleg tilboð á mat hér sem maður getur fylgst með í gegnum öpp,” segir Anita.

Á dögunum vakti Anita athygli á hvað matarkarfan hennar kostaði lítið. Meðal þess sem Anita keypti var kjúklingur, ostar, safar, bjórkippa, brauð og fleira. Karfan kostaði ekki nema 300 krónur danskar eða um sex þúsund íslenskar krónur. Anita segir að ef hún myndi bara kaupa það allra nauðsynlegasta kæmist hún upp með að versla fyrir 1.500 krónur danskar á mánuði.

Sælgæti og gos er dýrt í Danmörku en hún segir ástæðuna vera sykurskattinn. „Þá fer maður í Þýskalandsferð. Það tekur bara klukkutíma. Það er fyndið að geta bara skroppið til næsta lands og keypt eitthvað ódýrara og farið aftur heim.”

Þessi matarkarfa kostaði um sex þúsund krónur.
Þessi matarkarfa kostaði um sex þúsund krónur.

Huggulegheit í Danmörku

Danir eru þekktir fyrir að hjóla allt sem þeir fara. „Ég hjóla sex kílómetra í vinnuna og svo sex heim,“ segir Anita sem var hætt að nota bíl á Íslandi en hún bjó á Akureyri. Í stað þess gekk hún, hjólaði eða tók strætó. 

Anita er ánægð með lífsgæðin í Danmörku. Læknisþjónustan er ókeypis og skólinn hefur komið vel til móts við dóttur hennar. Sveitarfélagið kom líka vel til móts við hana þegar hún var nýflutt og atvinnulaus.

Það er þó ekki síst hin hversdagslegu lífsgæði sem hún er ánægð með. „Danir elska að hafa það huggulegt,“ segir hún og nefnir að vel sé hugsað um fjölskyldu og gæludýr. Það er hægt að sækja afþreyingu og menningu frítt. „Það er líka ótrúlega gaman að geta hjólað á ströndina eða taka lest til annarra bæja eða jafnvel til Kaupmannahafnar,“ segir Anita. 

Ætlar þú að flytja aftur til Íslands?

„Ég hugsa að ég flytji ekki aftur til Íslands.“

Anita fer allt á hjólinu sem hún segir dásamlegt.
Anita fer allt á hjólinu sem hún segir dásamlegt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is