Mælir með að flytja til Kaupmannahafnar

Borgarferðir | 3. mars 2024

Mælir með að flytja til Kaupmannahafnar

Bryndís Björk Bergsdóttir er nýflutt heim frá Kaupmannahöfn eftir nám í Copenhagen School of Design and Business. Hún fór heim með ferðatöskuna fulla af góðum minningum og þrátt fyrir að vera komin heima á draumaborgin stóran sess í hjarta hennar. 

Mælir með að flytja til Kaupmannahafnar

Borgarferðir | 3. mars 2024

Bryndís Björk Bergsdóttir naut þess að búa í Kaupmannahöfn.
Bryndís Björk Bergsdóttir naut þess að búa í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Bryndís Björk Bergsdóttir er nýflutt heim frá Kaupmannahöfn eftir nám í Copenhagen School of Design and Business. Hún fór heim með ferðatöskuna fulla af góðum minningum og þrátt fyrir að vera komin heima á draumaborgin stóran sess í hjarta hennar. 

Bryndís Björk Bergsdóttir er nýflutt heim frá Kaupmannahöfn eftir nám í Copenhagen School of Design and Business. Hún fór heim með ferðatöskuna fulla af góðum minningum og þrátt fyrir að vera komin heima á draumaborgin stóran sess í hjarta hennar. 

„Viku eftir að ég útskrifaðist úr Verzló, sumarið 2019, flutti ég til Kaupmannahafnar, fyrst og fremst til að freista gæfunnar og prófa eitthvað nýtt. Ég fór ekki strax í nám og vildi ná tökum á tungumálinu og læra að standa á eigin fótum áður en ég byrjaði í námi. Námið sem ég var spenntust fyrir er ekki til á Íslandi, sem var enn meiri hvatning til að flytja út.

Í byrjun árs 2020 fór ég í ferðalag um Asíu með vinkonum mínum, tók inntökupróf fyrir námið sem mig langaði mest að fara í, komst inn og byrjaði í skóla haustið 2020, og hef því verið búsett að fullu í Kaupmannahöfn síðan þá,“ segir Bryndís Björk um ástæðu þess að hún flutti til Danmerkur. 

Hér er Bryndís Björk að útskrifast með gráðu í BA …
Hér er Bryndís Björk að útskrifast með gráðu í BA gráðu í hönnun og viðskiptum með áherslu á vörkumerkjahönnun. Ljósmynd/Aðsend

Bryndís Björk heillaðist strax af því hversu fjölbreytt og lifandi borgin er.

„Það sem heillar mig mest við borgina enn þann dag í dag er hversu fjölbreytt og lifandi borgin er. Sama hvaða dag vikunnar eða tíma sólarhringsins er hægt að finna sér eitthvað að gera. Að prófa ný kaffihús, nýjar skemmtilegar götur eða horfa á fólk. Maður getur alltaf fundið sér eitthvað nýtt að gera þó að með tímanum finni maður sér sína staði sem maður þekkir og elskar.“

Það er hægt að gleyma sér í Nørrebro

Hvað finnst þér einkenna danskan stíl? 

„Það fyrsta sem kemur upp í hugan þegar ég hugsa um danskan stíl er fyrirhafnarlaus klæðnaður sem bara virkar. Það er ekkert skemmtilegra en að fylgjast með dönsku götutískunni á strætum Kaupmannahafnar og fá hugmyndir fyrir næstu outfit. Frá því að ég var ung hefur mér þótt dönsk hönnun einstaklega falleg, og það var klárlega eitt af því sem dró mig til Danmerkur. Með tímanum hef ég tileinkað mér danskan stíl og safnað alls konar gersemum í fataskápinn, þá sérstaklega sem ég hef fundið í fallegum dönskum verslunum og á second-hand mörkuðum.

Hér er einnig stór markaður fyrir því að kaupa notaðar mublur sem gerir manni kleift að kaupa danskar hönnunarvörur á heimilið á viðráðanlegu verði. Ég hef þó eingöngu búið í stúdentaíbúð þar sem ikea húsgögn hafa komið mér langt, en ýmis dönsk hönnun inn á heimilið sem ég hef fengið að kynnast síðastliðin ár er ofarlega á óskalistanum yfir hluti sem mig langar að safna mér fyrir og vonandi eignast í náinni framtíð.“

Áttu uppáhaldshverfi í Kaupmannahöfn og af hverju?

„Nørrebro er mitt uppáhaldshverfi, hér iðar allt af mannlífi og menningu hvaðanæva úr heiminum. Þar líður mér best. Ég bjó þar síðastliðin fjögur ár og verið svo heppin að skólinn minn er í sama hverfi. Þar er allt til alls og stundum liðu vikur á milli þess að ég fór úr hverfinu. Hér er hver gata með sinn sjarma, barir, veitingastaðir og kaffihús fyrir hvert tilefni og búðir sem finnast hvergi annars staðar í Kaupmannahöfn.“

Nørrebro er uppáhaldshverfi Bryndísar Bjarkar.
Nørrebro er uppáhaldshverfi Bryndísar Bjarkar. Ljósmynd/Aðsend

Hvar er skemmtilegast að versla í Kaupmannahöfn? 

„Mér finnst skemmtilegast að rölta um á fallegum sunnudegi um Elmegade í Nørrebro og göturnar þar í kring og kíkja í „second hand“ búðir. Þar er hægt að finna alls konar gersemar í búðum á borð við Keiko og Chamoi sem eru oft fullar af flottum notuðum flíkum. Hér eru líka oft „second hand“ markaðir, til dæmis Veras Market, sem mér finnst yfirleitt skemmtilegast að versla á. Þar finnur maður alla þá hluti sem mann langar í beint úr fataskápum frá dönskum gellum.“

Í Kaupmannahöfn er að finna markaði sem selja notaðar vörur.
Í Kaupmannahöfn er að finna markaði sem selja notaðar vörur. Ljósmynd/Aðsend

Áttu uppáhaldsveitingastað eða kaffihús?

„Við í vinahópnum gerum mikið upp úr því að skiptast á því að bjóða hvor öðru í mat enda hentar það námsmannalífstílnum aðeins betur en að fara út að borða. Þegar að við gerum okkur dagamun þá er uppáhaldsveitingastaðurinn minn án efa Pico Pizza, þar er hægt að fá þrjár litlar pizzur í stað þess að fá eina stóra og að mínu mati þær bestu í borginni. Ég prófaði einnig nýlega veitingastaðinn Osteria 16 sem fær mín bestu meðmæli.

Tvö af mínum uppáhaldskaffihúsum í Kaupmannahöfn eru til dæmis Friheden og Beau Marché. Þegar kemur að börum er einnig margt í boði, Pompette er skemmtilegur staður til þess að fá sér vínglas en okkar go-to bar í vinahópnum er Skaal þar sem við höfum átt mörg eftirminnanleg kvöld.“

Veitingastaðurinn Pico Pizza býður upp á skemmtilegar pizzur.
Veitingastaðurinn Pico Pizza býður upp á skemmtilegar pizzur. Ljósmynd/Aðsend

Allar árstíðir dásamlegar í Danmörku

Hvað er ómissandi að sjá og gera í borginni?

„Mér finnst að allir sem heimsækja Kaupmannahöfn ættu að prófa að skoða borgina á hjóli. Það eru hjólastígar um alla borgina og auðvelt að komast yfir stóran hluta borgarinnar á einum degi á hjóli. Minn uppáhaldsstaður er án efa Frederiksberg Have og þá sérstaklega á sumrin. Þar er bæði hægt að labba um og setjast niður með nesti og njóta samveru í góðra vina hópi, eða einn með hlaðvarp og gleyma stað og stund.“

Bryndís Björk mælir með að mæta snemma á höfnina á …
Bryndís Björk mælir með að mæta snemma á höfnina á sumrin með handklæði og nesti. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er draumadagurinn í borginni?

„Á sumarmánuðum er borgin upp á sitt besta. Þá er uppskrift að góðum degi að fara snemma út á höfn með handklæði og nóg af nesti með vinum eða einn og hoppa í sjóinn til að kæla sig niður. Þá er einnig mjög gaman að leigja lítinn bát og sigla um höfnina til að brjóta upp daginn. Á góðum sumardegi getur maður setið þar langt fram á kvöld og svo kíkt út um kvöldið og haldið fjörinu áfram.

Á vetrarmánuðum er draumadagur í borginni að labba um önnur hverfi en mitt eigið og uppgötva nýjar gersemar sem annars fara framhjá manni. Þá er Vesterbro og Frederiksberg oft fyrir valinu, enda hverfi sem hafa margt upp á að bjóða og gaman að að labba um.

Ég vil einnig nefna Louisiana safnið, sem er einn af mínum uppáhaldsstöðum til að heimsækja allan ársins hring. Safnið er um klukkustund fyrir utan borgina með lest en vel þess virði að skella sér.“

Garðurinn Frederiksberg Have er í miklu uppáhaldi hjá Bryndísi Björk …
Garðurinn Frederiksberg Have er í miklu uppáhaldi hjá Bryndísi Björk og þá sérstaklega á sumrin. Ljósmynd/Aðsend

Bryndís Björk mælir líka með því að fara aðeins út fyrir borgina. 

„Fyrir þá sem þekkja borgina inn og út mæli ég með að skella sér í ferju frá Kaupmannahöfn og yfir til sænsku eyjunnar Hven í dagsferð. Ég er svo heppin að hafa eignast bestu vinkonu sem er alin upp á eyjunni og notið góðs af að kynnast þessari perlu. Það eru ekki margir sem vita af henni en að fara þangað á fallegum degi er draumi líkast og minnir mann á ævintýri úr bók eftir Astrid Lindgren. Á eyjunni búa um 300 manns, þar er engin matvörubúð, en veitingastaðir og bakarí sem nota afurðir frá eyjunni að mestu leyti. Það er hægt að taka með sitt eigið eða leigja hjól og hjóla hringinn í kringum eyjuna, þar sem heimafólk tekur hlýlega á móti manni.“

Eyjan Hven minnir á draumaveröld Astrid Lindgren.
Eyjan Hven minnir á draumaveröld Astrid Lindgren. Ljósmynd/Aðsend
Hægt er að fara í góða dagsferð á sænsku eyjuna …
Hægt er að fara í góða dagsferð á sænsku eyjuna Hven. Ljósmynd/Aðsend

Kostur að skipuleggja sig en íslenska hugarfarið er líka gott

Er eitthvað í fari Dana sem Íslendingar mættu taka sér til fyrirmyndar?

„Danir eru mjög skipulagðir sem mér finnst að Íslendingar geta tekið sér til fyrirmyndar. Hér er planað langt fram í tímann og Daninn grínast ekkert þegar að kemur að því að skrifa niður í dagatalið í símanum sínum, enda allt planað niður á hverja mínútu. Að mínu mati getur það þó verið ansi ýkt og hugsanlega er millivegurinn alltaf bestur, að skipuleggja sig vel en hafa rými til að stökkva á tækifæri og uppákomur sem bjóðast manni.“

Var erfitt að aðlagast einhverju í menningunni? 

„Nei ég myndi ekki segja að það hafi verið erfitt að aðlagast að danskri menningu. Stærsti munurinn sem ég upplifði við að flytja til annars lands var án efa að vera í burtu frá fjölskyldu og vinum. Það venst með tímanum og maður lærir enn frekar að kunna að meta hvað Ísland hefur margt upp á að bjóða. Að slíta sig frá því sem að maður er vanur og elst upp í er mjög þroskandi og opnar líka margar dyr. Ég eignaðist yndislega vini úti frá öllum heimshornum og lærði að meta hygge-kúltúrinn sem er svo sterkur í danskri menningu, lifa í núinu og njóta litlu augnablikanna.“

Sérðu fyrir þér að koma heim eða er Kaupmannahöfn málið?

„Tíminn minn í Kaupmannahöfn hefur verið frábær og ég mæli með fyrir hvern sem langar að flytja til borgarinnar að stökkva á tækifærið. Ég var þó byrjuð að sakna vina minna, fjölskyldu og kærasta sem búa öll á Íslandi og er spennt að verja meiri tíma með þeim heima á Íslandi. Þó að Kaupmannahöfn sé frábær þá er heima alltaf best og er ég mjög spennt fyrir því að vera flutt aftur heim, einni gráðu ríkari og með ferðatöskuna fulla af skemmtilegum minningum.“

Sumarkvöld í Kaupmannahöfn.
Sumarkvöld í Kaupmannahöfn.
mbl.is