Telja sig vera með svarið við uppruna Covid-19

Kórónuveiran COVID-19 | 27. júlí 2022

Telja sig vera með svarið við uppruna Covid-19

Hópur vísindamanna telur sig loksins vera kominn með líklegt svar við spurningunni um hvert rekja megi uppruna útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins.

Telja sig vera með svarið við uppruna Covid-19

Kórónuveiran COVID-19 | 27. júlí 2022

Sýnatökur urðu víða hluti af daglegu lífi fólks í Covid-19 …
Sýnatökur urðu víða hluti af daglegu lífi fólks í Covid-19 heimsfaraldrinum. AFP

Hópur vísindamanna telur sig loksins vera kominn með líklegt svar við spurningunni um hvert rekja megi uppruna útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins.

Hópur vísindamanna telur sig loksins vera kominn með líklegt svar við spurningunni um hvert rekja megi uppruna útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins.

Samkvæmt niðurstöðum tveggja rannsókna sem birtust á vef Science í gær, þá barst veiran fyrst í menn á matarmarkaðnum í Wuhan í Kína.

Ýmsar getgátur hafa verið uppi um uppruna útbreiðslunnar og hefur því m.a. verið haldið fram að veiran hafi verið sköpuð á rannsóknarstofu og að hún hafi fyrir slysni borist út í samfélagið.

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknanna sem birtust í gær hefur sjúkdómurinn þó borist náttúrulega frá dýrum til manna. Þykja þessar upplýsingar mikilvægar í ljósi þess að mögulega verður hægt að nýta þær í að afstýra næsta heimsfaraldri og þar með bjarga milljónum mannslífa.

Fyrstu tilfellin þétt við markaðinn

Í fyrri rannsókninni sem birt var í gær er landfræðilegt mynstur smitútbreiðslunnar á fyrsta mánuði faraldursins, desember 2019, skoðað. Í ljós kom að fyrstu tilfellin voru að greinast nokkuð þétt í grennd við matarmarkaðinn í Wuhan.

Í seinni rannsókninni var þróun veirunnar snemma í faraldrinum skoðuð út frá erfðafræðilegum gögnum. Komust vísindamenn að þeirri niðurstöðu að ólíklegt væri að veiran hefði dreifst víða í mönnum fyrir nóvember 2019.

Breytti um afstöðu 

Michael Worobey, sem er meðhöfundur að báðum rannsóknarskýrslunum, hafði áður hallast að þeirri tilgátu að uppruna útbreiðslunnar mætti rekja til rannsóknastofuslyss.

Hafði hann m.a. skrifað bréf þar sem hann hvatti vísindasamfélagið til að kynna sér betur þann möguleika. Í kjölfar rannsóknarinnar hefur afstaða hans þó breyst og telur hann nú líklegra að veiran hafi borist frá dýrum til manna á matarmarkaðnum.

Smit borist í menn oftar en einu sinni

Spendýr sem eiga í hættu á að smitast af veirunni voru seld lifandi á markaðnum. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að líklegt sé að kórónuveirur af tveimur mismunandi ættum hafi smitast yfir í menn sem ollu útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins, annars vegar í nóvember 2019 og hins vegar í desember 2019.

Þá hafi kórónuveira mögulega smitast oftar frá dýrum til manna á markaðnum en þau tilfelli hafi hins vegar ekki leitt til Covid-19.

Ómögulegt að sanna

„Höfum við afsannað lekakenninguna? Nei, það höfum við ekki. Munum við einhvern tímann vita það með vissu? Nei,“ sagði Kristian Andersen, meðhöfundur rannsóknaskýrslnanna.

„En ég held þó að það sem sé mjög mikilvægt í þessu sé að það er möguleg atburðarás og svo er trúverðug atburðarás. Og það er mjög mikilvægt að skilja að mögulegt þýðir ekki að það sé jafn líklegt,“ bætti hún við.

mbl.is