Gjaldið svipað og verð á kókdós

Ferðamenn á Íslandi | 2. desember 2022

Gjaldið svipað og verð á kókdós

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og nefndarmaður í samgöngunefnd þingsins, segist ekki eiga von á öðru en að nýtt frumvarp um upp­bygg­ingu og rekst­ur flug­valla og þjón­ustu við flug­um­ferð verði að lögum. 

Gjaldið svipað og verð á kókdós

Ferðamenn á Íslandi | 2. desember 2022

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og nefndarmaður í samgöngunefnd þingsins, segist ekki eiga von á öðru en að nýtt frumvarp um upp­bygg­ingu og rekst­ur flug­valla og þjón­ustu við flug­um­ferð verði að lögum. 

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og nefndarmaður í samgöngunefnd þingsins, segist ekki eiga von á öðru en að nýtt frumvarp um upp­bygg­ingu og rekst­ur flug­valla og þjón­ustu við flug­um­ferð verði að lögum. 

Athygli hefur vakið að í frumvarpinu er lagt til 200 krónu gjald á hvern farþega í millilandaflugi sem kallað er varaflugvallagjald. Drög að frum­varp­inu hafa verið lögð fram til kynn­ing­ar í sam­ráðsgátt stjórn­valda.

Í þeim má sjá að hið svo­nefnda vara­flug­valla­gjald á að skila stjórn­völd­um 1.200-1.500 millj­ón­um króna ár hvert ef gert er ráð fyr­ir því að um sex millj­ón­ir farþega greiði gjaldið.

Njáll Trausti var formaður starfshóps sem skipaður var af samgönguráðherra til að kanna þessi mál og þar var flugvallakerfi landsins kortlagt, ásamt þörfinni fyrir viðhald og uppbyggingu, en þess má geta að Njáll starfaði árum saman sem flugumferðastjóri áður en hann tók sæti á þingi.  

„Þar stungum við upp á því að varaflugvallagjald yrði tekið upp og lögðum til að það gæti verið 100 - 300 krónur á fluglegg. Í frumvarpinu sem lagt hefur verið fram er lagt til að gjaldið sé 200 krónur. Það er líklega svipað verð og á kókdós,“ segir Njáll Trausti og bendir á að varaflugvallamálið snúist ekki síst um flugöryggi. 

„Þetta er ekki léttvægt mál í bransa þar sem allt snýst um öryggi.“

Skilningur þingheims hefur aukist

Mikilvægi þess að eiga nothæfa varaflugvelli eykst með hverju árinu að sögn Njáls Trausta. 

„Miðað við spár um fjölda ferðamanna á næsta ári þá erum við að ná sömu hæðum og áður. Við sjáum í raun ekki fram á annað en áframhaldandi vöxt í ferðaþjónustunni á næstu árum og mikilvægi varaflugvallanna eykst bara með hverju árinu. Ef eitthvað kemur upp á í Keflavík þurfum við að eiga þann kost að senda vélar á varaflugvelli.“

Njáll Trausti er með bakgrunn úr fluggeiranum.
Njáll Trausti er með bakgrunn úr fluggeiranum. Ljósmynd/Aðsend

Njáll Trausti bendir á að málið hafi verið kynnt í fimm ára fjármálaáætluninni í vor og segist eiga von á að frumvarpið mun fara í gegnum Alþingi. 

„Ég trúi ekki öðru en að málið fari í gegnum þingið og þetta verði klárað. Frá því ég byrjaði á þingi fyrir sex árum hefur mér fundist skilningur þingheims á mikilvægi flugsamgangna og ferðaþjónustu hafa aukist. Þessi mál hafa einnig verið mjög mikið rædd í þingsal.“

Fjármögnun flugvalla hrundi eftir 2011

Varðandi fjármögnun á uppbyggingu varaflugvalla segir Njáll að mikil breyting hafi orðið árið 2011.  

„Þá var gamla varaflugvallagjaldið lagt af og í framhaldinu hrundi fjármögnun til flugvalla landsins. Á verðlagi 2017 þá voru um 1.450 milljónir að meðaltali tuttugu árin á undan. Eftir 2011 er 350 milljónum varið til þessara mála á ári og því er í raun tekinn rúmur milljarður út úr þessu. Þar með veiktist þetta kerfi mjög, bæði varðandi viðhaldið og nýframkvæmdir. En á sama tíma eykst umferðin um Keflavíkurflugvöll og þegar mest var árið 2018 komu um 80 flugvélar á dag til Keflavíkur. Sú tala gat raunar farið upp í 100 vélar á dag yfir sumartímann. En þær voru á bilinu 20-25 á dag árið 2010,“ segir Njáll Trausti og þar sem Keflavík sé vinsæll flugvöllur fyrir tengiflug þá myndist miklir álagstímar. 

„Þegar þú ert með tengiflugvöll eins og Keflavík þá er mikil umferð á vissum tímum sólarhringsins. Þá kemur mjög mikill fjöldi inn á skömmum tíma. Það eru viðkvæmustu tímarnir í Keflavík og ef eitthvað skyldi gerast í Keflavík að þá þarf varaflugvöll til að taka við umferðinni. Umferðin verður flóknari og flóknari og því getur fleira komið upp á,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson. 

mbl.is