Systur gera upp hjólhýsi saman

Hönnun | 18. mars 2023

Systur gera upp hjólhýsi saman

Systurnar Selma María Cassaro og Hafdís Jóna Cassaro fengu þá frábæru hugdettu að gera upp gamalt hjólhýsi í Danmörku en Hafdís er búsett í landinu. Tveimur dögum eftir að hugmyndin kom upp var Selma komin upp í flugvél til Danmerkur til að gera upp hjólhýsið sem verður ekkert venjulegt hjólhýsi þegar verkefninu lýkur.

Systur gera upp hjólhýsi saman

Hönnun | 18. mars 2023

Selma María Cassaro og Hafdís Jóna Cassaro.
Selma María Cassaro og Hafdís Jóna Cassaro. Ljósmynd/Aðsend

Systurnar Selma María Cassaro og Hafdís Jóna Cassaro fengu þá frábæru hugdettu að gera upp gamalt hjólhýsi í Danmörku en Hafdís er búsett í landinu. Tveimur dögum eftir að hugmyndin kom upp var Selma komin upp í flugvél til Danmerkur til að gera upp hjólhýsið sem verður ekkert venjulegt hjólhýsi þegar verkefninu lýkur.

Systurnar Selma María Cassaro og Hafdís Jóna Cassaro fengu þá frábæru hugdettu að gera upp gamalt hjólhýsi í Danmörku en Hafdís er búsett í landinu. Tveimur dögum eftir að hugmyndin kom upp var Selma komin upp í flugvél til Danmerkur til að gera upp hjólhýsið sem verður ekkert venjulegt hjólhýsi þegar verkefninu lýkur.

Systurnar eru skapandi og þó þetta sé þeirra fyrsta sameiginlega verkefni eru þær vanar ýmsu brasi. Selma er menntaður fatahönnuður, hefur tekið námskeið í innanhúshönnun og er að læra að verða löggiltur fasteignasali. Hafdís er hins vegar tækniteiknari og byggingafræðingur og hefur unnið á verkfræði- og arkitektastofu.

Hvernig datt ykkur í hug að kaupa hjólhýsi og gera það upp?

„Við erum báðar rosalega skapandi en fundum okkur vera fastar í því að þurfa að halda okkur inni í einhverju öruggu boxi þegar kemur að hönnun. Fáir þora eða vilja jafnvel ekki fara út fyrir kassann og á Íslandi er markaðurinn svo lítill að til þess að fasteign, sem dæmi, er söluvæn þá höfum við upplifað að maður þurfi að höfða til sem stærsta kúnnahóps. Við systur erum mjög nánar og tölum yfirleitt saman í síma í marga tíma á dag. Þar sem Selma er í miðju verkefni núna að gera upp húsið sitt á Íslandi, fór hún að tala um það hvað henni þyki leiðinlegt hvað hún hafi misst skapandi hliðina sína og fannst hún byrjuð að hanna meira í þeim þanka gangi að fasteignin yrði sem söluvænlegust þegar eða ef að því kæmi að hún myndi selja,“ segja systurnar.

Systurnar vinna hörðum höndum.
Systurnar vinna hörðum höndum. Ljósmynd/Aðsend

Hafdís stakk því upp á því að þær keyptu bústað í Danmörku til þess að gera upp og leyfa öllu rugluðu hugmyndunum að njóta sína. Selmu leist vel á hugmyndina en þegar þær fóru að skoða peningahliðina ákváðu þær að það væri skynsamlegra að byrja smærra og var hjólhýsið lendingin.

„Við vildum byrja á þessu og það helst í gær, þannig það barst í tal hvort það væri ekki viðráðanlegra fyrir okkur að byrja á hjólhýsi, þar sem þau eru mun minni og ódýrari en bústaður og nánast engin föst mánaðarleg gjöld. Þetta samtal átti sér stað þann 3. mars 2023, þá fórum við í það að skoða hjólhýsi til sölu á netinu og fundum eitt sem okkur leist vel á í Óðinsvéum. Tveimur dögum seinna, eða þann 5. mars var Selma lent á flugvellinum í Kaupmannahöfn,“ segja þær. Fyrsta verk var að skoða hjólhýsið og tóku þær ákvörðun á staðnum um að kaupa ferðavagninn. Þær höfðu aðeins 23 daga til stefnu þar sem Selma á bókaðan miða til Íslands í lok mars.

Ljósmynd/Aðsend

Leyfa sköpunargleðinni að ráða för

Fannst öllum þetta góð hugmynd hjá ykkur?

„Við erum nú svolítið uppátækjasamar svo að fjölskylda og vinir kipptu sér lítið upp við þetta verkefni okkar, en fannst það spennandi og fylgjast flestir með í gegnum Instagram-síðuna okkar Pimp my Caravans og sýna þessu áhuga. Við lögðum þetta þó ekki undir neinn annan en Helga kærasta Selmu, sem er vanur allskonar hugmyndum frá henni. Hann virtist taka vel í hugmyndina og ákváðum við að fylgja þessari hugmynd eftir og ganga strax til verks. Þegar það kemur að sjálfri hönnuninni þá eru auðvitað skiptar skoðanir sem langflestar eru jákvæðar og það er gaman að sjá hversu margir eru spenntir yfir þessu og hlakka til að sjá lokaútkomun. Þegar maður tekur svona djarfar hönnunar ákvarðanir, þá getur maður ekki höfðað til allra sem gefur að skilja, en við erum líka mjög meðvitaðar um það. Við ætlum þó að fylgja okkar innsæi og leyfa sköpunargleði okkar að njóta sín og vonandi mun hún gleðja aðra í leiðinni.“

Hafi þið áður gert eittvað upp?

„Við höfum báðar ágætis reynslu í að gera upp fasteignir, en menntun okkar nýtist vel í svona verkefnum. Þetta er þó fyrsta skipti sem við förum í verkefni saman og fyrir þetta hafði hvorug okkar stigið fæti inní hjólhýsi svo þetta var vel út fyrir þægindarammann og við lærum eitthvað nýtt á hverjum einasta degi, en það er líka það skemmtilega og vissulega stundum það erfiða við þetta.“

Ljósmynd/Aðsend

Eru líkari en margir héldu

Hafdís og Selma hafa lent í nokkrum óvæntum áskorunum í verkefninu.

„Fyrsta áskorunin var klárlega að koma hjólhýsinu heim, þar sem hvorug okkar hefur keyrt með annað en litla kerru aftan á bílnum. Það var frekar kvíðavaldandi fyrir Hafdísi og olli henni smá svefnleysi en svo gekk það reyndar bara svona ansi vel og gekk þessi tæp tveggja tíma keyrsla heim ljómandi vel. Svo tók við vitneskjuleysi varðandi hjólhýsi,“ segja systurnar og viðurkenna að seljandinn hafi þurft að sýna þeim hvernig allt virkaði og eru þetta einfaldir hlutir á borð við hvernig skápar og klósetthurðir virkuðu yfir í flóknari hluti. 

Fólk sem fer í framkvæmdir á fasteignum þekkir að þegar farið er af stað vinda framkvæmdirnar upp á sig. Það sama má segja um hjólhýsið. Seljandinn taldi systrunum trú um að hjólhýsið væri án rakaskemmda en í ljós kom að það leyndist smá raki. Þær Hafdís og Selma bjuggust svo sem við því enda hjólhýsið 33 ára gamalt.

„Svo er smá áskorun að vera ekki með aðstöðu inni til að gera það upp að utanverðu, þar sem veðráttan er búin að vera að stríða okkur aðeins. Til þess að geta haldið áfram að vinna inni í hjólhýsinu án þess að neitt skemmist þá fannst okkur nauðsyn að hendast af stað í búð að kaupa regnhelda ábreiðu yfir það. Við gerðum það og stóðum svo eins og kjánar að reyna að fá það yfir vagninn í grenjandi rigningu og miklu roki. Ábreiðan er núna komin inn og tekur hálft eldhúsið og reynum við þetta aftur þegar veðrið vinnur meira með okkur. Flesta daga erum við rosa peppaðar yfir þessu, í miklum gír og þá er mikil keyrsla. Þegar óvænt vandamál koma upp þá getur það dregið aðeins úr okkur og þurfum við þá að minna okkur á að áskoranir eru eðlilegur hluti af ferlinu. Við erum alveg einar að vinna þetta verkefni svo Youtube og Google hefur hjálpað okkur talsvert.“

Ljósmynd/Aðsend

Hefur þetta reynt á systrasambandið?

„Sem krakkar vorum við alltaf svo ótrúlega ólíkar, fengum stöðugt að heyra það að við værum alveg svart og hvítt. Þessa hugsun tókum við með okkur inn í fullorðinsárin og trúðum því að við ættum í raun litla sem enga samleið. Síðustu árin höfum við hins vegar unnið mjög mikið í því að eignast gott og fallegt systrasamband og það skemmtilega er, að við erum í raun mjög líkir karakterar í dag. Þannig þegar kom að því að innrétta, velja liti og þessháttar í hjólhýsið þá gekk það eiginlega asnalega smurt fyrir sig. Báðar fá að koma með sína hugmynd, sama hversu klikkuð hún er, og frá báðum hálfum hefur alltaf verið tekið vel í þær, eða þá að við ræðum hugmyndina, köstum henni á milli, þar til við finnum hina fullkomnu lausn. Við munum ekki eftir því að orðið „nei“ hafi verið notað í hönnunarferlinu, sem er skemmtileg tilbreyting frá því sem maður á að venjast.“

Ljósmynd/Aðsend

Elska pastelliti

Hjólhýsið þeirra er á góðri leið með að verða eins og algjör ævintýraveröld. Hafdís og Selma voru harðákveðnar í því að fara enga venjulega leið þegar kom að því að innrétta hjólhýsið sitt.

„Það vill bara svo skemmtilega til að við elskum báðar pastelliti og í raun liti yfir höfuð og ákváðum snemma að vagninn ætti að verða eins og kandífloss og frekar ýktur, við vildum ekki fara hálfa leið með sköpunargleðina,“ segja þær en markmiðið er að fólk sem kemur inn í hjólhýsið upplifi gleði og hugurinn fari aftur í barnæskuna.

Hjólhýsaverkefnið er bara byrjunin hjá systrunum.

„Við höfum upplifað þetta ferli svo ótrúlega skemmtilegt og gefandi að nú dreymir okkur um að gera upp fleiri hjólhýsi, húsbíla, sumarbústaði og vonandi ná að gera þetta að okkar atvinnu þar sem við blómstrum algjörlega í þessu. Hver vagn mun hafa sitt eigið þema, svo þeir verða allir mismunandi og munu vonandi öll finna vagn sem höfðar til sín. Við viljum svo opna fyrir þann möguleika að hefja útleigu á vögnunum, þannig að pör, vinahópar, fjölskyldur eða þau sem vilja, hafa möguleikann á því að gera sér gott frí í vagni sem er gleði og notalegheit,“ segja þær.

Eins og er verkefnið í Danmörku en hver veit hvort það stækki og færist alla leið til Íslands eða annað. Fyrst á dagsskrá er að prufukeyra vagninn með börnum og fjölskyldu en áfangastaðurinn er óákveðinn.mbl.is