Lengsti kjarasamningur Íslandssögunnar

Kjaramál sjómanna | 16. febrúar 2024

Lengsti kjarasamningur Íslandssögunnar

„Þetta er mjög góð tilfinning, að vera með samþykktan samning á bakinu – ekki felldan eins og í fyrra,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, en sjómenn samþykktu kjarasamning sinn með tæpum 63 prósentum atkvæða í tæplega 54 prósenta kjörsókn og gildir nýsamþykktur samningur frá áramótum.

Lengsti kjarasamningur Íslandssögunnar

Kjaramál sjómanna | 16. febrúar 2024

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, er ánægður með nýjan kjarasamning …
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, er ánægður með nýjan kjarasamning sem hlaut afgerandi meirihluta í atkvæðagreiðslu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög góð tilfinning, að vera með samþykktan samning á bakinu – ekki felldan eins og í fyrra,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, en sjómenn samþykktu kjarasamning sinn með tæpum 63 prósentum atkvæða í tæplega 54 prósenta kjörsókn og gildir nýsamþykktur samningur frá áramótum.

„Þetta er mjög góð tilfinning, að vera með samþykktan samning á bakinu – ekki felldan eins og í fyrra,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, en sjómenn samþykktu kjarasamning sinn með tæpum 63 prósentum atkvæða í tæplega 54 prósenta kjörsókn og gildir nýsamþykktur samningur frá áramótum.

Aðspurður kveðst Valmundur hafa búist við samþykkt samningsins fyrir fram en ekki að hún yrði svo afgerandi sem raun ber vitni. Kveður hann kjörsóknina svipaða og verið hafi síðustu ár í atkvæðagreiðslum sambandsins.

Samningstíminn er níu ár og játar Valmundur spurningu blaðamanns um hvort þar sé kominn lengsti kjarasamningur Íslandssögunnar í gildistíma talið. „Já, ef hann verður í gildi í níu ár verður hann það örugglega,“ segir formaðurinn, en samningnum má segja upp eftir fimm ár, aftur eftir sjö ár og svo árlega eftir það.

Sjómenn nú með sömu lífeyrisréttindi og aðrir

Valmundur vill færa sjómönnum kærar þakkir auk þeirra sem unnu með sambandinu að samningsgerðinni. „Þetta er alveg frábært og sjómenn eru núna að tryggja sér til framtíðar það sem aðrir hafa haft lengi, til dæmis lífeyrissjóðinn,“ segir Valmundur og er beðinn að tíunda höfuðatriði samningsins.

„Ja, við getum sagt það að nú eru sjómenn komnir með sömu lífeyrisréttindi og aðrir landsmenn auk þess sem veikindarétturinn er styrktur verulega hjá sjómönnum sem eru í skiptimannakerfunum, við erum að tryggja þeim fjóra mánuði á samfelldum hlut,“ segir Valmundur frá.

Annað atriði samningsins, sem hann segir í raun ekki marga vita af, er breyting á stærðarmælingum skipa til að máta þau inn í kjarasamninginn. „Það hefur verið gert í brúttórúmlestum hingað til en sú mælieining er ekki lengur til svo við mælum núna í lengdarmetrum skipanna. Þá gengur mun betur að stilla skipunum inn í samninginn og ákvarða á hvaða skiptakjörum menn eiga að vera,“ útskýrir formaðurinn.

Kostnaðarhlutdeild hverfur á braut

Þá nefnir hann að sjómenn séu lausir við hlutdeild í olíukostnaði og sé það gert með svokallaðri núllaðgerð. „Nú erum við lausir við allt sem heitir kostnaðarhlutdeild og þurfum ekkert að hugsa um það meira, nú geta sjómenn sótt beint á eina skiptaprósentu í staðinn fyrir tvær ef menn vilja það,“ segir Valmundur og bætir því við að nýtt kerfi horfi til mikillar einföldunar.

Kauptrygging sjómanna hækkar um 130.000 krónur og fer þar með í 454.000 króna lágmarkslaun og tímakaupið hækkar til jafns við það hlutfallslega hjá þeim sem vinna á tímakaupi. „Það var löngu kominn tími á að hækka þetta, föstu launaliðirnir hafa ekki hækkað síðan 2019,“ segir Valmundur.

Launahækkanir á samningstímabilinu, það er fastir kaupliðir, fylgja taxta Starfsgreinasambandsins. „Við erum beintengdir við Starfsgreinasambandið með hækkanir þar og þurfum ekki að semja um þær,“ segir Valmundur Valmundsson að lokum.

mbl.is