Byrjaði að hanna og prjóna flíkur í miðjum heimsfaraldri

Fatastíllinn | 6. apríl 2024

Byrjaði að hanna og prjóna flíkur í miðjum heimsfaraldri

Í miðjum kórónuveirufaraldri árið 2020 byrjaði Alfa Bæhrenz Björgvinsdóttir að prjóna og hekla flíkur og töskur. Síðan þá hefur hún töfrað fram fallegar flíkur sem hún hannar sjálf, en hún notast ekki við uppskriftir og leggur mikla áherslu á að hver flík sé einstök. 

Byrjaði að hanna og prjóna flíkur í miðjum heimsfaraldri

Fatastíllinn | 6. apríl 2024

Samsett mynd

Í miðjum kórónuveirufaraldri árið 2020 byrjaði Alfa Bæhrenz Björgvinsdóttir að prjóna og hekla flíkur og töskur. Síðan þá hefur hún töfrað fram fallegar flíkur sem hún hannar sjálf, en hún notast ekki við uppskriftir og leggur mikla áherslu á að hver flík sé einstök. 

Í miðjum kórónuveirufaraldri árið 2020 byrjaði Alfa Bæhrenz Björgvinsdóttir að prjóna og hekla flíkur og töskur. Síðan þá hefur hún töfrað fram fallegar flíkur sem hún hannar sjálf, en hún notast ekki við uppskriftir og leggur mikla áherslu á að hver flík sé einstök. 

Í apríl 2022 ákvað Alfa að stofna Instagra-síðu þar sem hún birti myndir af því sem hún var að prjóna og hekla. Ég kjölfarið fór hún að selja flíkurnar í gegnum Instagram, en í dag hefur hún opnað vefsíðu þar sem hægt er að versla flíkur og fá sendar heim að dyrum. 

Samhliða þessu starfar Alfa sem ráðgjafi á landsspítalanum. Hún er með BS gráðu í sálfræði, en hún útskrifaðist vorið 2021. „Eftir útskrift tók ég pásu frá námi og fór þá að prjóna og hekla flíkur. Mig langaði að prófa að læra eitthvað tengt hönnu nog tísku í kjölfarið og ákvað að sækja um í tækniskólanum þar sem ég tók eina önn í fatateiknun haustið 2022,“ segir Alfa. 

„Ég hætti þó eftir það og fór að safna fyrir íbúð en var búin að ákveða að ég vildi halda áfram að mennta mig í einhverju tengdu sálfræðinni. Ég byrjaði því í meistaranámi í hagnýtri atferlisgreiningu við Háskóla Íslands haustið 2023,“ bætir hún við. Um þessar mundir er Alfa þó í fæðingarorlofi, en hún eignaðist sitt fyrsta barn í ársbyrjun.

Hefur þú alltaf haft áhuga á tísku?

„Já ég hef alltaf haft gaman af því að klæða mig í falleg föt og hef fylgst mikið með tísku. Ég hef samt aðallega gaman af því að búa flíkurnar til sjálf. Mamma kenndi mér að sauma og ég hef verið að breyta fötum eða búa til föt síðan ég var unglingur.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Hann er allskonar, myndi ekki segja að ég væri með einhvern einn stíl. En ég reyni að vera umhverfisvæn og kaupa notað, svo finnst mér líka rosa gaman að klæðast einhverju sem ég er nokkuð viss um að enginn eigi eins. Það er líka svolítið pælingin á bakvið Weavy ... ég reyni að gera enga flík alveg eins og ég hef gert áður, þá geta þeir sem kaupa hjá mér verið alveg vissir um að eiga einstaka flík.“

Hvenær byrjaður þú að prjóna og hekla?

„Ég lærði það þegar ég var unglingur en byrjaði ekki að prjóna og hekla föt fyrr en í kórónuveirufaraldrinum árið 2020.“

Finnst þér þinn stíll endurspeglast í því sem þú prjónar og heklar?

„Ekki alltaf en í lang flestum tilfellum þá já. Ég hef prjónað og heklað flíkur sem ég myndi ekki nota sjálf en það hefur þá verið óvart – hugmyndin góð en bara eitthvað klikkað hjá mér að útfæra hana. Ég sel hana samt oftast, nema ef mér finnst hún alveg hræðileg, því við erum alls ekki öll eins og finnst mismunandi flíkur fallegar. Þetta gerist samt örsjaldan.“

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir vörurnar?

„Oft sé ég eitthvað í umhverfinu sem gefur mér innblástur, sé einhvern sem er í peysu í fallegum litum eða með skemmtilegri áferð. Samfélagsmiðlar eru líka mikill innblástur, þá nota ég Pinterest mest. Ég er með Pinterest aðgang fyrir Weavy sem er hægt að kíkja á og skoða.“

Áttu þér uppáhaldsflík sem þú hefur prjónað eða heklað?

„Erfitt að velja uppáhalds en ætli rauða peysan sé ekki ein uppáhalds, ég hugsa oft til hennar. En í mestu uppáhaldi núna er klárlega ljósbleika peysan mín.“

Hver er flóknasta flík sem þú hefur gert?

„Flóknasta flík sem ég hef gert er peysan í heimferðasetti sonar míns. Það var samt rosa gaman að fá smá áskorun. Þetta er uppskrift eftir ömmu loppu með gullfallegu laufa mynstri.“

Áttu þér uppáhaldsgarn?

„Já, mitt uppáhalds svona „go to“ garn er „fluffy“ loðið garn. Ég elska áferðina á því og það sem er í mestu uppáhaldi akkúrat núna er wow! Fluffy by katia. Annars er langskemmtilegast að finna einhverja gullmola í rauða krossinum eða öðrum verslunum sem selja notað garn.“

Hvað er það sem heillar þig við prjónið og heklið?

„Ætli það sé ekki dundið við það. Mér finnst almennt rosa gott að hafa eitthvað í höndunum, kannski kvíðatengt ... ég hætti að minnsta kosti að naga neglurnar þegar ég byrjaði að prjóna og hekla.“

Hafa vörurnar þínar þróast á síðustu árum?

„Já, ég er alltaf að þróa vörurnar, verða betri í tækni og bæta gæðin. Svo er ég líka alltaf að reyna að gera eitthvað nýtt svo að hver flík verði einstök.“

Nú ert þú nýbökuð móðir – prjónaðir/heklaðir þú mikið á meðgöngunni?

„Ég var í mjög krefjandi námi stóran hluta af meðgöngunni svo ekki eins mikið og ég hefði viljað. Ég hafði heldur aldrei prjónað eða heklað á svona lítil börn. Það tók því líka smá tíma að læra að lesa uppskriftir því ég hef alltaf prjónað og heklað eftir mínu eigin höfði. Ég náði þó að gera heimferðarsettið, einhverja samfestinga, húfur, vettlinga og sokka.“

Ertu með einhver ráð fyrir þá sem langar að byrja að prjóna eða hekla?

„Hmm, já ég myndi byrja á að fara eftir Youtube ... það getur verið yfirþyrmandi að byrja á því að lesa uppskriftir. Þær geta gert einfalda hluti rosa flókna. Ég mæli líka með því að byrja á því að prjóna eitthvað sem þig langar í, ég persónulega hefði ekki þolinmæði í að prjóna eitthvað sem ég myndi aldrei nota.“

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég á lítinn sex vikna strák og verð í fæðingarorlofi þetta árið. Þar sem ég á svona lítinn gaur hef ég ekki náð að prjóna og hekla eins mikið og ég geri vanalega en ég finn að ég er farin að hafa meiri tíma til að prjóna og hekla eftir því sem ég venst foreldrahlutverkinu meira. Ég mun því halda áfram að hanna og búa til flíkur og birta það reglulega inn á Weavy!“

mbl.is