Telja forsendur til að lækka vexti

Vextir á Íslandi | 8. maí 2024

Telja forsendur til að lækka vexti

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda stýrivöxtum óbreyttum óskiljanlega.

Telja forsendur til að lækka vexti

Vextir á Íslandi | 8. maí 2024

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir ákvörðun peningastefnunefndar óskiljanlega.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir ákvörðun peningastefnunefndar óskiljanlega. Samsett mynd/Ómar Óskarsson/Hjörtur

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda stýrivöxtum óbreyttum óskiljanlega.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda stýrivöxtum óbreyttum óskiljanlega.

Telur miðstjórnin ákvörðunina ganga þvert á fyrri rökstuðning nefndarinnar og vera mikið áhyggjuefni með tilliti til áhrifa á hagkerfið og afkomu almennings.

Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnarinnar.

Krefjast að yfirvöld standi við skuldbindingar

Minnir miðstjórnin á að verkalýðshreyfingin hafi fallist á hóflegar launahækkanir í síðustu kjarasamningum til að stuðla að hjöðnun verðbólgu og þar með lækkun vaxta. Launafólk í landinu krefjist því þess að ríki og sveitarfélög standi við skuldbindingar sínar og stundi ábyrga hagstjórn til að yfirlýstum markmiðum verði náð.

Vekur miðstjórn athygli á að við síðustu hækkun stýrivaxta Seðlabankans í ágúst árið 2023 hafi peningastefnunefnd sagt hækkunina nauðsynlega með vísun í óvissu um kjarasamninga, spennu í hagkerfinu og undirliggjandi verðbólgu.  

Nú liggi fyrir kjarasamningur til langs tíma sem hafi verið gerður í nafni stöðugleika. Hagtölur sýni að spenna í hagkerfinu fari minnkandi og að undirliggjandi verðbólga hafi hjaðnað. Án áhrifa húsnæðiskostnaðar mælist verðbólga 3,9% og samkvæmt kjarnavísitölu án áhrifa reiknaðrar húsaleigu mælist hún 3,5%.

Fjármagn flutt frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga

Rökstuðningurinn sem borinn var fram í ágúst eigi því augljóslega ekki lengur við, að því er fram kemur í ályktuninni.  

„Við þessar aðstæður kallar nákvæmlega ekkert á að stýrivöxtum sé haldið óbreyttum í 9,25%. Þvert á móti blasir við að forsendur eru til þess að hefja lækkun vaxta,“ segir í ályktuninni. 

„Núverandi vaxtastig felur í sér skipulagðan flutning fjármagns frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga peningana. Þannig er ákvörðun peningastefnunefndar fallin til að þjóna hagsmunum fjármagnsafla og auka enn ójöfnuð í landinu. “

Fasteigna- og leiguverð muni hækka

Segir miðstjórnin neyðarástand ríkja á húsnæðismarkaði og telja megi víst að fasteigna- og leiguverð muni enn fara hækkandi. Slíkar hækkanirnar verði helsti aflvaki verðbólgunnar sem ofurvextir leysi ekki.

Helsta orsök húsnæðiskreppunnar sé getu- og úrræðaleysi ríkis og sveitarfélaga. Skortstefna hvað lóðir varðar haldi uppi fasteignaverði og þar með skatttekjum sveitarfélaga.

„Miðstjórn ASÍ telur þá framgöngu ósiðlega. Óþolandi er með öllu að launafólk í landinu beri kostnaðinn af þeim vítahring húsnæðiskreppu, verðbólgu og vaxta sem skortstefnan veldur.“

mbl.is