„Sá sparnaður er ekki auðfundinn“

Vextir á Íslandi | 20. mars 2024

„Sá sparnaður er ekki auðfundinn“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að aðilar vinnumarkaðarins hafi gert sitt í baráttunni við verðbólgu og háa vexti en nú sé komið að ríkisstjórninni að hafa stjórn á sínum fjármálum.

„Sá sparnaður er ekki auðfundinn“

Vextir á Íslandi | 20. mars 2024

Kristrún Frostadóttir vonast til þess að aðstæður skapist fyrir lækkun …
Kristrún Frostadóttir vonast til þess að aðstæður skapist fyrir lækkun vaxta fljótlega. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að aðilar vinnumarkaðarins hafi gert sitt í baráttunni við verðbólgu og háa vexti en nú sé komið að ríkisstjórninni að hafa stjórn á sínum fjármálum.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að aðilar vinnumarkaðarins hafi gert sitt í baráttunni við verðbólgu og háa vexti en nú sé komið að ríkisstjórninni að hafa stjórn á sínum fjármálum.

„Ég auðvitað vona að það skapist aðstæður sem fyrst til að hefja lækkun vaxta. Við í Samfylkingunni teljum að aðilar vinnumarkaðarins hafi gert sitt en núna þarf ríkisstjórnin að hafa stjórn á sínum fjármálum,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%.

Hætt við því að aðgerðir ríkisins auki á eftirspurn í hagkerfinu

Kristrún segir ljóst að peningastefnunefnd vilji bíða og sjá áður en hún fer í vaxtalækkunarferli.

„Ég hjó eftir því að nefndin bendir á ríkisfjármálin, að það sé auðvitað hætt við því að aðgerðir í ríkisfjármálum auki á eftirspurn og verðbólguþrýsting. Þetta er aðeins í takt við það sem við höfum verið að benda á.

Þrátt fyrir að við höfum hrósað aðilum vinnumarkaðarins fyrir það sem við teljum vera ábyrga kjarasamninga, og við höfum að mörgu leyti verið ánægð með þær aðgerðir sem komu hjá ríkisstjórninni, þá höfum við alltaf talað fyrir því að slíkar aðgerðir séu fjármagnaðar,“ segir Kristrún og vísar í kjarapakka stjórnvalda sem nema 20 milljörðum á ári næstu fjögur árin.

Ríkisstjórnin ekki tilbúin að fjármagna aðgerðirnar

Hún segir að Samfylkingin hafi kynnt kjarapakka undanfarin tvö fjárlög þar sem alltaf hafi legið fyrir full fjármögnun á þeim aðgerðum sem flokkurinn leggur til.

„En ríkisstjórnin fer eiginlega svona hluta úr leið. Þau eru samkvæmt sínum eigin útreikningum að bæta 20 milljörðum við útgjöldin á ársgrundvelli. Ég held reyndar að þetta sé nær því að vera 12 milljarða útgjöld bara vegna þess að stórum hluta af framlaginu í húsnæðismálum er þegar gert ráð fyrir, en gott og vel.

En þau eru ekki tilbúin að fjármagna þetta, hvorki með auknum tekjum eða minni útgjöldum annars staðar. Það er kannski stærsta einstaka atriðið sem við höfum bent á hingað til og það er auðvitað hætt á því að þetta dragi úr jákvæðum áhrifum kjarasamningana á verðbólgu og vexti.“

Stefnuleysi ríki í velferðarmálum

Hún segir að þegar ríkið stígi inn í með þessum hætti þá þurfi heildarmynd að liggja baki.

Telur Kristrún að stefnuleysi ríki í velferðarmálum sem snúa að vaxtabótakerfinu, húsnæðisbótakerfinu og barnabótakerfinu. Hún hefði verið til að sjá þessar aðgerðir vera hluta af langtímastefnu hjá ríkisstjórninni en ekki bara ófjármagnað viðbragð við kjarasamningum.

Kristrún ítrekar að Samfylkingin sé almennt ánægð með aðgerðirnar en segir heildarsamhengið skorta.

„Við höfum verið með tekjutillögur og okkar pólitík hefur verið í því. Auðvitað er alltaf hægt að spara einhvers staðar en við getum heldur ekki verið blaut á bak við eyrun hvað það varðar, að sá sparnaður er ekki auðfundinn. Það var mjög erfitt að finna til að mynda níu milljarða í fjárlögunum fyrir jól, þannig það er ekki sjálfgefið eins og fjármálaráðherra hefur talað um, að það sé bara hægt að leggja niður og sameina einhverjar stofnanir og finna hátt í 20 milljarða.“

mbl.is