Vill leggja niður ábyrgðarmannakerfi námslána

Vextir á Íslandi | 16. mars 2024

Vill leggja niður ábyrgðarmannakerfi námslána

Ábyrgðarmannakerfi námslána verður alfarið fellt niður ef nýtt frumvarp háskólaráðherra er samþykkt.

Vill leggja niður ábyrgðarmannakerfi námslána

Vextir á Íslandi | 16. mars 2024

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert

Ábyrgðarmannakerfi námslána verður alfarið fellt niður ef nýtt frumvarp háskólaráðherra er samþykkt.

Ábyrgðarmannakerfi námslána verður alfarið fellt niður ef nýtt frumvarp háskólaráðherra er samþykkt.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins en frumvarp um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Frumvarpinu, sem felur einnig í sér að skilyrði fyrir námsstyrk verði rýmkuð, er ætlað að bregðast við annmörkum núverandi laga og byggir á skýrslu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra þar sem unnið var úr athugasemdum sem borist höfðu um Menntasjóðinn.

Sárafáir „ótryggir“ lánþegar

Með núgildandi lögum var ábyrgðamannakerfi fellt niður á þeim lánum sem voru í skilum við gildistöku laganna. Upphæð lána í skilum með sjálfsskuldarábyrgð ábyrgðarmanna nemur um 1,1 milljarði króna í dag. Á undanförnum árum hafa endurheimtur á lánum gagnvart ábyrgðarmönnum verið sáralitlar. Þær voru t.d. 16 milljónir króna á árinu 2021.

Frumvarpið sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda fellir alfarið niður ábyrgðarmannakerfi lána. Eftir breytinguna yrði ekki kallað eftir því að lánþegar afli ábyrgða hjá þriðja aðila og núverandi ábyrgðir samkvæmt eldri og gildandi lögum felldar niður.

Skilyrði til lántöku verða útfærð þannig að sjóðurinn beri ekki skaða af brotthvarfi ábyrgðarmanna. Samkvæmt upplýsingum frá Menntasjóðnum eru svokallaðir „ótryggir“ lánþegar sárafáir og áhrifin af niðurfellingu ábyrgða vegna þeirra því lítil sem engin.

Sveigjanleiki aukinn

Frumvarpið kveður einnig á um að námsmenn geti áunnið sér styrk vegna eininga af tveimur námsleiðum í stað einnar áður. Núgildandi fyrirkomulag hefur mætt nokkurri gagnrýni, þar sem tiltölulega algengt er að námsmenn skipti um námsbraut að loknu fyrsta ári í námi, segir í tilkynningunni.

Nemendur sem hefja nám í einni grein gætu með nýjum lögum skipt yfir í annað nám en notið réttinda til námsstyrks í fyrra náminu samhliða nýja náminu.

Breytingar á lögum um menntasjóð eru hluti af aðgerðum stjórnvalda í tengslum við nýjan kjarasamning sem undirritaður var á dögunum.

mbl.is