Ákvörðun nefndarinnar „ákveðin vonbrigði“

Vextir á Íslandi | 20. mars 2024

Ákvörðun nefndarinnar „ákveðin vonbrigði“

Ákvörðun peningastefnunefndar, um að halda stýrivöxtum í 9,25%, olli Samtökum atvinnulífsins (SA) ákveðnum vonbrigðum.

Ákvörðun nefndarinnar „ákveðin vonbrigði“

Vextir á Íslandi | 20. mars 2024

Anna segir að ákvörðunin undirstriki mikilvægi þess að opinberi vinnumarkaðurinn …
Anna segir að ákvörðunin undirstriki mikilvægi þess að opinberi vinnumarkaðurinn semji í anda almenna vinnumarkaðarins og að hagræðing verði í ríkisrekstri. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðun peningastefnunefndar, um að halda stýrivöxtum í 9,25%, olli Samtökum atvinnulífsins (SA) ákveðnum vonbrigðum.

Ákvörðun peningastefnunefndar, um að halda stýrivöxtum í 9,25%, olli Samtökum atvinnulífsins (SA) ákveðnum vonbrigðum.

Þó undirstrikar ákvörðunin mikilvægi þess að opinberi vinnumarkaðurinn semji í anda almenna vinnumarkaðarins og að hagræðing verði í ríkisrekstri.

Þetta segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs SA, í samtali við mbl.is.

Mikilvægt að opinberi vinnumarkaðurinn semji eins og almenni

„Okkur þótti það ákveðin vonbrigði að peningastefnunefnd hafi ekki séð tilefni til að lækka vexti að svo stöddu. Henni hefur verið tíðrætt um kjarasamninga og við teljum að við á almenna markaðnum höfum lagt okkar að mörkum við að draga úr óvissu að skapa skilyrði fyrir vaxtalækkanir,“ segir hún.

Hún tekur þó undir orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra sem benti á það í morgun að allur vinnumarkaðurinn væri ekki búinn að semja.

„Þannig það er mjög mikilvægt að opinberi markaðurinn haldi sig innan þeirrar stefnu sem hefur verið mörkuð á almenna markaðnum,“ segir Anna.

Vilja að stjórnvöld sýni aðhald í rekstri

Hún segir það virðast vera sem svo að peningastefnunefnd treysti sér ekki til þess að hefja vaxtalækkanir fyrr en hún sjái með skýrari hætti í gögnunum hver áhrif samninganna verða. Verðbólga sé enn mikil og verðbólguvæntingar einnig of háar.

„Nefndin virðist þurfa að sjá þessa mælikvarða koma kröftugar niður til þess að treysta sér til að hefja vaxtalækkunarferlið. En við heyrðum líka á fundinum í morgun, og það kom fram í yfirlýsingu nefndarinnar, að þau hafa áhyggjur af ríkisfjármálunum þar sem þau gætu aukið eftirspurn og valdið verðbólguþrýstingi.

Við tökum undir þessar áhyggjur og beinum því til stjórnvalda að þau gæti aðhalds í rekstri og hafi hemil á útgjaldaaukningu,“ segir Anna.

Höfðu enga aðkomu að kjarapakka stjórnvalda

Spurð nánar út í málflutning SA um aukið aðhald stjórnvalda í ljósi aðkomu stjórnvalda við nýundirritaðra kjarasamninga, þar sem stjórnvöld munu eyða 80 milljörðum næstu fjögur árin, segir Anna:

„Við höfðum enga aðkomu að þeim pakka. Það voru alfarið kröfur viðsemjenda okkar á ríkið.“

Hún segir alveg ljóst að ef aðkoma stjórnvalda í kjarasamningum sé byggð á breyttri forgangsröðun stjórnvalda þá þýði það að eitthvað annað þurfi undan að láta.

„Það er löngu tímabært að ráðast í hagræðingu í opinberum rekstri alveg eins og atvinnurekendur hafa þurft að gera að undanförnu.“

mbl.is