Næsta eldgos fær mikið forskot

Næsta eldgos fær mikið forskot

Þótt fjórða eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina sé loksins lokið eru enn miklar líkur á öðru gosi á næstu dögum. Nú hafa 13 milljónir rúmmetra af kviku þegar safnast undir Svarstengi sem þýðir að næsta kvikuhlaup er komið með gott forskot.

Næsta eldgos fær mikið forskot

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 9. maí 2024

„Við erum í rauninni að búast við því að þetta …
„Við erum í rauninni að búast við því að þetta fari í gang hvenær sem er núna,“ segir jarðeðlisfræðingur við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þótt fjórða eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina sé loksins lokið eru enn miklar líkur á öðru gosi á næstu dögum. Nú hafa 13 milljónir rúmmetra af kviku þegar safnast undir Svarstengi sem þýðir að næsta kvikuhlaup er komið með gott forskot.

Þótt fjórða eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina sé loksins lokið eru enn miklar líkur á öðru gosi á næstu dögum. Nú hafa 13 milljónir rúmmetra af kviku þegar safnast undir Svarstengi sem þýðir að næsta kvikuhlaup er komið með gott forskot.

„Við erum í rauninni í nákvæmlega sömu stöðu og við vorum í dagana og síðustu tvær vikurnar fyrir síðasta gos og þarsíðasta gos,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Benedikt finnst líklegast að næsti atburður verði á sama svæði, hvort sem það verði kvikuinnskot eða eldgos. Jarðskorpan sé orðin deigari eftir fjögur gos og tvö kvikuinnskot, allt á sama hálfa árinu. „Þetta er orðið veikasti punkturinn.“

Líkanreikningur á kvikusöfnun í Svartsengi.
Líkanreikningur á kvikusöfnun í Svartsengi. Kort/Veðurstofa Íslands

Hvað gerðist 2. mars?

Eldgosið er frábrugðið fyrirrennurum sínum að mörgu leyti, t.d. lifði það talsvert lengur en fyrri gos á Sundhnúkagígaröðinni.

„Lærdómurinn af þessu gosi á eftir að koma fram seinna. Það er ansi margt nýtt og menn eiga í rauninni eftir að rannsaka og skoða hvernig þetta passar inn í stóru myndina,“ segir Benedikt.

Hegðun gossins, og hversu langlíft það var, er þróun sem Benedikt sá ekki fyrir sér að myndi gerast á Sundhnúkagígaröðinni.

„Þetta kerfi er að breyta sér,“ segir hann og bendir á að upphaf þessara breytinga miðist í raun við kvikuinnskotið þann 2. mars sem myndaðist með afar skömmum fyrirvara.

„Við verðum að passa að gefa okkur ekki að þetta hagi sér bara eins í hvert skipti. Við verðum að vera á tánum og sjá hvernig þetta breytist og þróast.“

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga á Veður­stofu Íslands. mbl.is

Eiga von á atburði „hvenær sem er“

Annað sem var óvenjulegt við þetta gos er að kvikusöfnun hélt áfram undir Svartsengi á meðan gosið stóð yfir, sem telst afar óvenjulegt. Nú er kvikusöfnunin þegar komin að þolmörkum. Er næsta eldgos þá ekki komið með smá forskot?

„Jú, við erum í rauninni að búast við því að þetta fari í gang hvenær sem er núna,“ svarar Benedikt.

Hann gerir samt ekki upp á milli þess hvort gos eða kvikuinnskot sé líklegra.

„Það eru alveg tvær vikur síðan við byrjuðum að benda á að þetta [kvikusöfnunin] væri komið að neðri mörkum,“ segir hann. Neðri mörk eru sem sagt lægstu mörk sem eldgos hefur hafist við. „Núna erum við komin upp fyrir þessi efri mörk og í rauninni bíðum átekta og sjáum hvað gerist næst, og eigum alveg von á að þetta gerist hvenær sem er.“

Kvikusöfnunin í Svartsengi, ekki í ganginum

Það er enn óvíst hvernig strúktúrinn á kerfinu undir Svarstengi lítur út, segir Benedikt.

„Það sem við sjáum á yfirborði er að kvikusöfnunin er í Svartsengi, ekki ganginum. En svo á hálftíma til klukkutíma bili er eins og kvika brjóti sér leið frá Svarstengi og inn í kvikuganginn [undir Sundhnúkagígum] og nái þannig að búa til opnun sem annaðhvort endar í kvikuinnskoti eða jafnvel eldgosi,“ útskýrir hann.

Það útilokar aftur á móti ekki að það sé kvika í ganginum sem geti farið af stað, þó fátt bendi til þess.

mbl.is