Meira en 200 gíslar látnir í Beslan

Ættingjar gísla freista þess að bera kennsl á lík nokkurra …
Ættingjar gísla freista þess að bera kennsl á lík nokkurra látinna barna á skólalóðinni í dag. ap

Á þriðja hundrað manns beið bana í barnaskólanum í Beslan í Norður-Ossetíu sem meintir tétsenksir aðskilnaðarsinnar tóku í gíslingu. Óttast er að talan eigi enn eftir að hækka. Héldu gíslatökumennirnir nálega þúsund manns þar í rúma tvo sólarhringa eða þar til rússneska öryggissveitir létu til skarar skríða og réðust inn í skólann í dag.

Rússneskar fréttastofur segja að 27 gíslatökumenn hafi verið felldir, þar af átta í skólanum en hinir í nágrenninu eftir að þeir hörfuðu úr skólanum. Þrír mannræningjanna náðust lifandi. Hermt er að níu mannanna hafi verið arabískir og einn blökkumaður.

Að sögn Interfax-fréttastofunnar varð mannfall í liði öryggissveitanna og lögreglu í áhlaupinu á skólann og átökum við gíslatökumennina eftir það.

Á sjöunda hundrað manns særðist í aðgerðinni og var komið undir læknishendur er þeir komust út úr skólanum er gíslatökumennirnir hörfuðu. Þeir hafa að fullu verið yfirbugaðir, flestir voru felldir eða náðust á lífi en sjónvarpsfregnir herma þó að fjögurra sé enn leitað í nágrenni skólans.

Leiðtogi Ossetíu, Alexander Dzasokhov, lýsti því yfir í sjónvarpi í kvöld að umsátrinu um skólann væri að fullu lokið. Enn heyrast þó þaðan sprengingar en talið er að það sé af völdum sprengja sem gíslatökumennirnir höfðu komið þar fyrir.

Margar klukkustundir liðu frá því skotbardagi hófst í morgun og þar til sérsveitirnar höfðu skólann á valdi sínu. Enn liggur ekki fyrir hvað olli sprengingu í einni álmu skólans sem varð til þess að sérsveitirnar hófu aðgerðir sínar. Rússnesk yfirvöld segja að ekki hafi verið í ráði að sækja inn á þessu stigi en aðgerðin hafi verið nauðsynleg til að bjarga mannslífum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert