Fjórir látnir eftir mótmæli vegna frétta af vanvirðingu á Kóraninum í Guantanamo

Fjöldi fólks mótmælti því að Kóraninn væri vanvirtur í Peshawar …
Fjöldi fólks mótmælti því að Kóraninn væri vanvirtur í Peshawar í Pakistan í gær. AP

Fjórir eru látnir og tugir slasaðir í Afganistan eftir mótmæli sem urðu vegna frétta um að bandarískir hermenn hefðu vanvirt Kóraninn í fangabúðum við Guantanamoflóa á Kúbu. Lögregla hóf að skjóta upp í loftið til að dreifa mannfjöldanum sem safnast hafði saman í borginni Jalalabad en fólkið kveikti í byggingum, m.a. pakistönsku ræðismannsskrifstofunni og húsnæði sænskra hjálparsamtaka.

Mótmælin urðu vegna frétta um að Kóraninn, trúarrit múslima, væri notaður við yfirheyrslur á stríðsföngum í búðum Bandaríkjahers við Guantanamo-flóa á Kúbu. Fréttirnar birtust fyrst í bandaríska tímaritinu Newsweek, en þar kom m.a. fram að Kóraninn hefði verið settur inn á baðherbergi. Í einu tilfelli á síðum úr ritinu að hafa verið sturtað niður.

Mótmælendur brenndu brúður af George W. Bush Bandaríkjaforseta og kölluðu „drepist Bandaríkin“.

Talsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins segja að verið sé að rannsaka hvort þetta geti verið rétt.

mbl.is