Líf að færast í eðlilegt horf í Lundúnum

Karlmaður gengur fram hjá tjaldi, sem reist var við strætisvagninn, …
Karlmaður gengur fram hjá tjaldi, sem reist var við strætisvagninn, sem sprakk skammt frá Russelstræti í Lundúnum í gær. Reuters

Líf í Lundúnum hefur verið að færast í eðlilegt horf í morgun eftir sprengjutilræðin í gærmorgun sem kostuðu að minnsta kosti 37 manns lífið. Tala látinna mun án efa hækka í dag. Strætisvagnar ganga að mestu samkvæmt áætlun og stærstur hluti lestarkerfisins einnig en King's Cross lestarstöðin er þó lokuð nema fyrir umferð lesta til og frá Lundúnum. Fólk er hvatt til að sýna aðgæslu ef það ferðast með almenningsfarartækjum og fara ekki að óþörfu í miðborgina en hluti hennar er enn girtur af þar sem rannsóknarvinnu og hreinsun eftir sprengingarnar er ekki lokið.

Greinilegt var í morgun að færri farþegar voru í neðanjarðarlestum en venjulega. Fátt var í sumum strætisvögnum og ekki margt fólk á ferli í mörgum neðanjarðarlestarstöðvum. Vegir voru einnig víða nánast auðir. Borgarbúar segjast hins vegar ekki eiga marga kosti aðra en nýta sér almenningssamgöngur enda eru leigubílar dýrir og umferð einkabíla í miðborginni er takmörkuð.

„Ég var hræddur en hvað getur maður gert," sagði Raj Varatharaj þegar hann kom upp úr neðanjarðarlestarstöð. „Þetta er fljótasta leiðin í vinnuna. Lífið heldur áfram."

Aldona Mosjko, 21 innflytjandi frá Póllandi, var hins vegar meðal þeirra sem ekki þorði að taka strætisvagn í dag. „Venjulega fer ég með strætisvagni en í morgun tók ég leigubíl. Ég var svolítið hrædd."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert