Margir leita ástvina eftir sprengingarnar í Lundúnum

Mynd af Karolinu Gluck, 29 ára pólskri konu, sem saknað …
Mynd af Karolinu Gluck, 29 ára pólskri konu, sem saknað er eftir árásirnar, hefur verið hengd upp í námunda við King's Cross lestarstöðina. AP

Ættingjar og vinir fólks sem saknað er eftir hryðjuverkaárásirnar í Lundúnum á fimmtudag leita nú ástvina sinna. Margir hafa útbúið veggspjöld með myndum af fólkinu sem saknað er og límt þau á símaklefa og strætisvagnaskýli. Þeir sem nú leita ástvina sinna eru í kappi við tímann og vonir um að fólkið finnist á lífi dvína eftir því sem á líður.

„Ég bara verð að finna hann,“ segir Yvonne Nash tárvotum augum, en hún kom fram í sjónvarpi og sýndi myndir af Jamie Gordon, kærasta sínum, sem hugsanlegt er talið að hafa verið um borð í strætisvagni þar sem ein sprengja hryðjuverkamannanna sprakk. 13 manns fórust í þeirri sprengingu. „Ég verð að fá að vita hvað gerðist,“ segir hún. „Er hann dáinn? Er hann á lífi? Að vita það ekki er hræðilegt.“

Scotland Yard hefur neitað að birta lista yfir þá sem saknað er eftir árásirnar en breska lögreglan sagði í dag að verið væri að skoða tilkynningar sem borist hefðu um meira en 1.000 manns sem lýst hefur verið eftir í kjölfar árásanna.

Þykir þetta benda til þess að fleiri kunni að hafa látist í árásunum en komið hefur fram hingað til. Bresk yfirvöld segja þó að þau efist um að fleiri en 100 manns hafi farist í árásunum. Þau segjast búast við því að geta leyst úr flestum fyrirspurnum um fólk sem saknað er. Hins vegar má búast við að það taki tíma, en lögregla skýrði frá því í dag að enn hefði ekki verið borin kennsl á lík fólks sem fórst í árásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert