Segir aðgerðir í Austurlöndum ástæðu hryðjuverkanna

Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúna.
Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúna. AP

Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúna, segir afskipti breskra og bandarískra ráðamanna af málefnum Mið-Austurlanda ástæðu hryðjuverkanna sem framin voru í Lundúnum fyrir um hálfum mánuði síðan. Hann telur fullvíst að hryðjuverkin hefðu aldrei verið framin, hefðu stjórnvöld á Vesturlöndum látið löndin afskiptalaus eftir fyrri heimsstyrjöld.

Þetta sagði Livingstone í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, í morgun er hann var spurður hvað hann teldi hafa knúið hryðjuverkamennina til aðgerða. Hann sagði stjórnvöld á Vesturlöndum hafa gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að koma höndum yfir olíuvinnslu á svæðinu og hafi vegna þessa stutt ýmsar óþverrastjórnir. Það hefðu þau betur látið ógert.

„Ég tel að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag sé frá upphafi níunda áratugarins… þegar Bandaríkjamenn þjálfuðu Osama bin Laden, kenndu honum að myrða, búa til sprengjur og sendu hann af stað til að drepa Rússa og hrekja þá á brott frá Afganistan,“ sagði Livingstone og bætti við að stjórnvöld hafi aldrei íhugað að þegar hann lyki starfi sínu myndi hann snúast gegn þeim sem skópu hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert