Hussain hafði engin tengsl við hryðjuverkahópa

Osman Hussain, sem handtekinn var á Ítalíu í á föstudag.
Osman Hussain, sem handtekinn var á Ítalíu í á föstudag. AP

Lögregla á Ítalíu sagði í dag, að yfirheyrslu yfir Osman Hussain hafi leitt í ljós að hann hafi ekki haft nein tengsl við hryðjuverkahópa á Ítalíu. Telur lögreglan að hryðjuverkamennirnir hafi verið á eigin vegum þegar þeir reyndu að sprengja fjórar sprengjur í lestum og strætisvagni í Lundúnum fyrir tæpum hálfum mánuði Hussain var handtekinn á föstudag og hefur hann verið vistaður í Regina Coeli öryggisfangelsinu í Róm síðan.

Hussain, sem einnig gengur undir nafninu Hamdi Issac, var handtekinn í íbúð í Róm. Hann fór frá Bretlandi fimm dögum eftir tilraun til hryðjuverka í Lundúnum með lest áleiðis til Ítalíu. Lögreglan handtók á sama tíma tvo bræður hans.

Carlo De Stefano, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar í Róm, sagði að Hussain hefði sýnt samstarfsvilja og hefði lítið gert til að hindra rannsókn á málinu. Svo virtist sem samstarfsmenn hans séu ættingjar og vinir, sem hafi skotið yfir hann skjólshúsi. Hafi þeir enga reynslu af hryðjuverkum. Hann hefði komið til Ítalíu ásamt fjórum bræðrum sínum árið 1989 og búið í Róm til ársins 1996. Einn bræðranna flutti til Kanada en að Hussain og annar bræðra hans hafi komist til Bretlands með fölskum skilríkjum. Sögðust þeir vera frá Sómalíu og sóttust eftir hæli í landinu.

Breska lögreglan, sem handtók samstarfsmenn Hussains, hefur krafist þess að Hussain verði framseldur frá Ítalíu.

Ítalskir lögreglumenn sýna fréttamönnum myndir af Osman Hussain.
Ítalskir lögreglumenn sýna fréttamönnum myndir af Osman Hussain. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert