Tíu stúlkur beittar kynferðislegu ofbeldi í finnskum bæ

Tíu stúlkur á aldrinum 12-15 ára hafa sætt kynferðislegum misþyrmingum í finnska bænum Toijala að undanförnu. Talið er að þeir sem misþyrmdu stúlkunum hafi gert það í tengslum við djöfladýrkun en einnig koma fíkniefni við sögu.

Að sögn finnska blaðsins Hufvudstadsbladet hafa félagsmálayfirvöld í bænum skotið skjólshúsi yfir stúlkurnar. Að sögn Pirjo Kukkonen, félagsmálastjóra, er ljóst að nokkrar þeirra þurfa langvarandi sálfræðimeðferð.

Kukkonen segir, að eftir samtöl við stúlkurnar séu sterkar vísbendingar um að málið tengist djöfladýrkun og fíkniefnaneyslu. Hann segist vona að lögreglan handtaki brátt hina seku því bæði stúlkurnar og foreldrar þeirra óttist þá. Kukkonen segir, að ódæðismennirnir séu nokkrir, flestir um þrítugt, og hluti þeirra búi í Toijala.

Lögreglan vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Málið komst upp fyrir hálfum mánuði þegar ein stúlkan leitaði til læknis. Í kjölfarið leituðu fleiri stúlkur á náðir félagsyfirvalda í bænum.

Kukkonen segir, að áður en þetta gerðist hafi verið vísbendingar um að stúlkurnar væru að fást við djöfladýrkun. Þær hefðu klætt sig sérkennilega og skorið sig til blóðs. Margir reyndu að ræða við stúlkurnar en þær vildu ekkert tjá sig um málið.

Flestar stúlkurnar ganga í sama skólann en þær búa í Toijala og nágrannaþorpum.

mbl.is