Sharon undirgengst neyðaraðgerð eftir að nýjar heilablæðingar komu í ljós

Sumir lækna Ariels Sharons segja að heilablóðfallið muni leiða til …
Sumir lækna Ariels Sharons segja að heilablóðfallið muni leiða til lömunar og að hann muni eiga erfitt með að tjá sig. AP

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, var fluttur með skyndingu í skurðaðgerð í dag eftir að læknar urðu varir við blætt hefði inn á heila hans. Að sögn Shlomo Moryussef, forstjóra Hadassah sjúkrahússins í Jerúsalem, kom blæðingin í ljós við sneiðmyndatöku, en læknarnir voru að reyna meta það hversu mikill skaði hefði hlotist af heilablóðfalli Sharons.

Á meðan sneiðmyndatakan var gerð kom í ljós að hluti heila Sharons hefði þanist lítillega út. Þá kom jafnframt í ljós að blætt hefði inn á heila að sögn Moryussef. Hann segir að ákveðið hafi verið að senda Sharon í aðgerð til þess að reyna ráða bót á þessu tvennu, þ.e. draga úr þrýstingnum og stöðva blæðinguna.

Sharon, sem hefur verið forsætisráðherra frá því árið 2001, var fluttur á sjúkrahúsið á miðvikudag, tæpum tveimur vikum eftir að hann fékk minniháttar heilablóðfall.

Læknar unnu við það í alla nótt að stöðva blæðingar á heila Sharons áður en að hann var svæfður.

Mönnum varð ljóst um alvarleika veikinda Sharons þegar sumir af hans nánustu samstarfsmönnum greindu frá því að það sé afar ólíklegt að Sharon muni aftur snúa til starfa. Þá hafa læknar sagt að heilablóðfallið hafi valdið skemmdum á heila Sharons sem ekki verði hægt að gera við.

Einn af læknunum á sjúkrahúsinu sagði við dagblaðið Maariv: „Við getum ekki sagt þetta með fullvissu, en miðað við hvar vandamálið er staðsett, þá teljum við að skemmdirnar sem forsætisráðherrann varð fyrir muni leiða til lömunar. Þá er mögulegt að það muni hafa áhrif á það hvernig hann mun tala.“

Annar lækna Sharons á að hafa sagt að heilaskemmdirnar hafi að öllum líkindum verið miklar og að þær verði áfram til staðar.

Varaforsætisráðherra Ísraels og fjármálaráðherra, Ehud Olmert, hefur tekið við sem starfandi forsætisráðherra í samræmi við lög landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert