Fjöldi Rússa vottar Jeltsín virðingu sína

Mikill fjöldi fólks hefur vottað Boris Jeltsín virðingu sína í dómkirkju Krists frelsara í Moskvu þar sem lík fyrrum forsetans stendur uppi. Jarðarför Jeltsíns, sem lést í gær af völdum hjartaáfalls 76 ára að aldri, fer fram á miðvikudag og hefur Bandaríkjastjórn tilkynnt að tveir fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, þeir George Bush eldri og Bill Clinton verði fulltrúar Bandaríkjanna í jarðarförinni. Leggja þeir af stað í kvöld frá New York áleiðis til Moskvu.

Lík Jeltsíns var í dag flutt til dómkirkjunnar í svörtum bíl og var heiðursvörður utan við kirkjuna. Dómkirkjan er sú stærsta í Rússlandi. Hún var eyðilögð árið 1931 en Jeltsín lét endurbyggja hana á síðari hluta 10. áratugar síðustu aldar.

Útfararathöfninni verður sjónvarpað beint í rússlandi. Þrír biskupar rétttrúnaðarkirkjunni í Rússlandi munu sjá um útförina, sem er fyrsta útför þjóðhöfðingja, sem rússneska kirkjan hefur séð um frá því Alexander III keisari var borinn til grafar árið 1894.

Rússneska sendiráðið á Íslandi að Túngötu 9 hefur tilkynnt að miðvikudaginn 25. apríl milli klukkan 10 og 17 muni minningarbók um Jeltsín liggja frammi í sendiráðinu og öllum er velkomið að rita samúðarkveðju vegna andláts forsetans fyrrverandi í bókina.

Syrgjendur halda mynd af Jeltsín á lofti í röð fyrir …
Syrgjendur halda mynd af Jeltsín á lofti í röð fyrir utan Kirkju Krists frelsara þar sem lík hans liggur. Reuters
mbl.is