Konur og börn velja fasteignir fjölskyldunnar

Konur eiga oftast síðasta orðið varðandi fasteignakaup fjölskyldna sinna í Danmörku samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem gerð var þar í landi en samkvæmt könnuninni eiga konur stóran þátt í 98% slíkra ákvarðana. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt könnuninni, sem unnin var af fasteignasölunni Home, ráða konur alfarið hvaða eign er keypt í 38% tilvika en í 60% tilvika taka hjón ákvörðun um kaupin í sameiningu. Í einungis 2% tilfella er það karlinn sem tekur einhliða ákvörðun í slíkum málum en í könnuninni var fylgst með ákvarðanaferli 206 hjóna sem stóðu í fasteignakaupum. Þá sýndi könnunin að karlar byggðu ákvarðanir sínar fyrst og fremst á verði og ástandi eignarinnar en að konur tóku fleiri þætti inn í ákvarðanir sínar.

„Fyrir nokkrum árum var það karlinn sem gaf tóninn varðandi húsnæðiskaup en það hefur breyst mikið að undanförnu. Nútímakonur fylgjast vel með peningamálunum og könnun okkar sýnir að konur hafa í auknu mæli síðasta orðið varðandi það hvort ákveðin eign er keypt eða ekki,” segir Niels H. Carstensen, upplýsingafulltrúi Home. „Við sjáum einnig þróun í þá átt að börn séu höfð með í ráðum varðandi húsnæðiskaup sem snúast um milljónir.”

Holger Thaysen, fasteignasali hjá Holstebro, tekur í sama streng. „Í æ fleiri tilfellum eru það konurnar og börnin sem taka lokaákvarðanir varðandi húsakaup,” segir hann. „Konurnar hafa auga fyrir praktískum hlutum og þær hafa einnig það sem ég vil kalla góða tilfinningu fyrir rýminu. Þær finna það á sér hvort þær geti látið sér líða vel á staðnum, jafnvel þótt þær séu umkringdar eigum annarra."

Þá segir hann að þegar konur og börn skoði húsnæði byrji þau strax að innrétta það í huganum og leika sér aðmöguleikunum á meðan karlarnir skoði ástand húsnæðisins á algerlega hlutlausan hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert