Clinton hótar að útrýma Íran ráðist landið á Ísrael

Hillary Clinton, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, hótaði í sjónvarpsviðtali í gær að útrýma Íran geri  Íranar kjarnorkuárás á Ísrael.

„Ég vil að Íranar viti, að ef ég verð forseti munum við ráðast á Íran," sagði Clinton við ABC News þegar hún var spurð hvernig hún myndi sem forseti bregðast við kjarnorkuárás Írana á Ísrael.

„Ef þeim dettur í hug að gera árás á Ísrael á næsta áratug gætum við útrýmt þeim," sagði Clinton.

Mikil spenna ríkir í herbúðum demókrata í Bandaríkjunum en í dag fara fram forkosningar í Pennsylvaníu. Vinni Clinton ekki afgerandi sigur á Barack Obama er talið að möguleikar hennar á að verða útnefnd forsetaefni flokksins séu úr sögunni.

Barátta þeirra Clinton og Obama hefur harðnað til muna síðustu daga. Framboð Obama sakaði Clinton um að reyna að hræða kjósendur með auglýsingum, sem birtust í gær þar sem m.a. voru myndir af Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda.  

mbl.is