Enginn bilbugur á Brown

Reuters

Breski forsætisráðherrann, Gordon Brown, viðurkenndi í dag að hann gæti staðið sig betur. Hann býr sig nú undir að verja leiðtogastólinn á flokksþingi Verkalýðsflokksins.

Hann bætti því við að kjósendur myndu ekki fyrirgefa honum og ríkisstjórn hans ef hætt yrði við að takast á við erfiðleika í efnahagslífinu sem upp hafa komið vegna umróts á fjármálamörkuðum undanfarna viku.

Brown sem var fjármálaráðherra Tony Blairs í tíu ár sagði að hann hefði þekkingu og dómgreind til að takast á við efnahagsvandann, umfram andstæðinga sína í Íhaldsflokknum sem spáð er meira fylgi en flokki Browns.

„Ég vil gera betur, auðvitað vil ég gera betur, mottó mitt og mottó skólans míns var: Ég mun gera mitt allra besta; ég vil alltaf gera betur,” sagði Brown í sjónvarpsviðtali á BBC.

Hann sagðist eiga í samvinnu við erlenda leiðtoga, meðal annars Bandaríkjaforseta, í því augnamiði að koma á alþjóðlegum reglum sem hefðu betri stjórn yfir fjármálakerfinu en verið hefði.

Aðspurður hvort hann hyggðist láta undan þrýstingi og hætta störfum sem leiðtogi flokksins gaf Brown til kynna að svo væri eigi. Hann sagði ennfremur að auðvitað yrði hann enn forsætisráðherra í lok ársins.

Næstu kosningar verða um mitt árið 2010 og gefa skoðanakannanir til kynna að Íhaldsflokkurinn muni sigra með yfirburðum.

David Miliband sem mælist mun vinsælli en Brown hefur neitað því að sækjast eftir leiðtogaembættinu. Nýverið gaf hann þó tveimur stórum dagblöðum viðtöl sem snerust í kringum fjölskyldu hans og einkahagi og kynti þar með undir getgátum.

mbl.is

Bloggað um fréttina