Óttast að smitaðir séu 100.000

Æ fleiri smitast af svínaflensunni í Bandaríkjunum.
Æ fleiri smitast af svínaflensunni í Bandaríkjunum. Reuters

Óttast er að um 100 þúsund manns séu smitaðir af svínaflensunni í Bandaríkjunum en sjúkdómurinn hefur nú dreifst til 48 ríkja landsins. Um 200 börn, unglingar og ungir fullorðnir hafa þurft á sjúkrahúsvist að halda vegna flensunnar og sex hafa látist.

Dr. Anne Schuchat á Sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna segir afar óvenjulegt að svo margir undir tvítugu þurfi á sjúkrahúsvist að halda vegna flensu og sumir þeirra á gjörgæslu, að því er Reuters fréttastofan hefur eftir henni. Svo alvarleg veikindi vegna flensulíkra einkenna séu harla óvenjuleg á þessum tíma árs. Þá sé mjög óvenjulegt að veikindi dreifist jafn hratt innan skóla og raun ber vitni nú, en yfirleitt sé flensutímabilinu lokið í Bandaríkjunum fyrir maí.

Yfirmaður heilbrigðisyfirvalda í New York tekur undir þetta og segir æ fleiri leita til neyðarmóttaka sjúkrahúsa með hita og flensu, sér í lagi í aldurshópnum 5 til 17 ára.

Um helmingur allra inflúensutilfella hafa verið greind af stofni H1N1 veirunnar, sem kennd er við svínaflensuna. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum segja að líklegt sé að um 100 þúsund manns séu smitaðir af veirunni. Schuchat telur að þau 5.123 tilfelli flensunnar sem hafa verið staðfest og þeir sex sem eru látnir af hennar völdum séu sennilega aðeins „toppurinn á ísjakanum".

Yfirleitt meðhöndla læknar aðeins einkenni flensunnar en greina sjaldnast af hvaða stofni hún er. Því segja heilbrigðisyfirvöld mikilvægt að fylgjast með einkennum á borð við hita, hósta og beinverki, til að fá yfirsýn yfir útbreiðslu flensunnar. Sumar heilbrigðisstofnanir hafa því gert það að reglu að gera flensupróf á sjúklingum sem leita sér aðstoðar.

Árlega deyja um 36 þúsund manns úr inflúensu í Bandaríkjunum og 250 – 500 þúsund manns í heiminum öllum. Schuchat bendir á að ólíkt hefðbundinni flensu séu tilfellin færri hjá fólki yfir 65 ára. Venjulega grandi inflúensan aðallega gömlu fólki og þeim sem glíma við þrálát veikindi. Nú sé þetta hins vegar öfugt, þegar veikindi innan sömu fjölskyldu séu skoðuð komi í ljós að þeir sem séu undir 18 ára aldri séu líklegri til að hafa smitast en þeir sem séu eldri.

„Ein af þeim kenningum sem við vinnum eftir er að eldri fullorðnir gætu haft einhver mótefni gegn veirunni frá fyrri tíð, þar sem þeir hafi einhvern tíman komist í tæri við veiru, sem gæti verið fjarskyld þessari." Önnur kenning sé sú að veiran hafi ekki enn haft tækifæri til að taka sér bólfestu í þeim sem eldri eru.

mbl.is

Bloggað um fréttina