Hæstiréttur Argentínu úrskurðar í maríjúanamáli

Kannabisplanta.
Kannabisplanta. Reuters

Hæstiréttur Argentínu hefur úrskurðað að það brjóti í bága við stjórnarskrá landsins að refsa fólki fyrir að nota maríjúana til einkaneyslu. Úrskurðurinn kemur í kjölfar máls fimm ungra manna sem voru handteknir með nokkra maríjúana vindlinga í vasanum.

Dómstóllinn segir hins vegar að notkunin megi ekki skaða aðra og þá tók hann skýrt fram að hann væri ekki með þessu að gefa grænt ljós á neyslu á maríjúana skv. lögum.

Fréttaskýrendur segja að æ fleiri aðhyllist það í Suður-Ameríku að leyfa eigi maríjúana til eigin nota, að því er segir á vef BBC.

Dómstóllinn úrskurðaði að fullorðnu fólki sé frjálst að taka ákvarðanir um eigið líf án afskipta ríkisins. 

Forseti hæstaréttarins, Ricardo Lorenzetti, segir að það sé löglegt að nota efnið til einkanota, svo framarlega sem það skapi ekki augljósa hættu. Það sé ekki ríkisins að ákveða hvað sé siðferðilega rétt. 

Ákvörðunin nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar og er búist við því að þing landsins muni tilkynna um breytingar á núverandi fíkniefnalöggjöf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert