Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á litningum

Þrír vísindamenn fá Nóbelsverðlaunin í læknisfræði í ár fyrir að rannsóknir á litningum og fyrir að sýna fram á hvernig svonefndir telómerar eða oddhulsur vernda litingana og rannsóknir á ensýminu telómerasi. Rannsóknirnar varpa ljósi á öldrun en þegar oddhuslurnar eyðast  hrörna frumurnar.

Vísindamennirnir heita Elizabeth H. Blackburn, sem er fædd Ástralíu árið 1948, Carol W. Greider, sem er fædd árið 1961 í Kalíforníu og Jack W. Szostak, sem fæddist í Lundúnum árið 1952. Öll starfa þau við bandaríska háskóla.

Litningarnir geyma erfðastofnana eða genin og á endum þeirra er eins konar hulsa sem styttist við hverja frumuskiptingu. Þegar oddhulsurnar eru búnar trosna endar litninganna og fruman deyr.

Fram kemur á vísindavef Háskóla Íslands, að í nokkrum tegundum frumna, meðal annars kynfrumum og krabbameinsfrumum, sé ensým sem byggi oddhulsurnar upp jafnóðum og þær eyðast. Þetta ensým nefnist telómerasi. Í gangi séu viðamiklar rannsóknir á oddhulsum litninganna og beinast þær rannsóknir einkum að krabbameini en einnig nokkuð að öldrun.

Nóbelsverðlaunin í læknisfræði eru í ár veitt í 100. skipti en þau voru fyrst veitt árið 1901 og á hverju ári síðan ef undan eru skilin árin þegar heimsstyrjaldirnar fyrri og síðari geisuðu. Alls hafa 192 einstaklingar fengið verðlaunin.

Á morgun verða Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði tilkynnt, á miðvikudag verðlaunin í efnafræði, á fimmtudag bókmenntaverðlaun Nóbels, friðarverðlaunin verða tilkynnt á föstudag og á mánudag verður tilkynnt hver hlýtur Nóbelsverðlaunin í hagfræði. 

Verðlaunahafar fá gullpening, verðlaunaskjal og 10 milljónir sænskra króna, jafnvirði um 180 milljóna íslenskra króna. Fái fleiri en einn verðlaun í hverri grein skipta þeir verðlaunafénu á milli sín.

Elizabeth H. Blackburn.
Elizabeth H. Blackburn.
Carol W. Greider.
Carol W. Greider.
Jack W. Szostak.
Jack W. Szostak.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert