Fjölskylda fórst í bílslysi

Borin hafa verið kennsl á fertugan bílstjóra frá Lettlandi sem virðist hafa valdið banaslysi við Holsted á Jótlandi í Danmörku í gær. Fjögurra manna fjölskylda frá Esbjerg fórst í slysinu auk Lettans. Hann hafði verið í heimsókn hjá bróður sínum og var á heimleið þegar slysið varð.

Jyllands Posten greinir frá því að slysið hafi orðið á Grindstedvej sem liggur inni í skógi. Bílarnir voru á leið í sömu átt þegar Lettinn ætlaði að taka framúr bíl fjölskyldunnar. Ekki tókst betur til en svo að hann ók á vinstra afturhjól fjölskyldubílsins. 

Hjólið rifnaði af við ákeyrsluna og misstu báðir bílstjórarnir stjórn á bílum sínum og óku útaf. Fjölskyldan sem fórst samanstóð af 37 ára fjölskylduföður og konu hans 33 ára auk tveggja dætra þeirra sem voru 6 og 8 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert