Ætla að sigla til Gasasvæðisins

Irene leggur af stað frá Famagusta í dag.
Irene leggur af stað frá Famagusta í dag. Reuters

Bátur aðgerðasinna frá Ísrael, Evrópu og Bandaríkjunum lagði í dag af stað frá Kýpur áleiðis til Gasasvæðisins með ýmis hjálpargögn, þar á meðal gervifætur. Skipverjarnir eru  gyðingar, sem ætla að freista þess að rjúfa hafnbann Ísraelsmanna á Gasa. 

Báturinn, sem nefnist Irene, fór frá Famagusta á tyrkneska hluta Kýpur í dag með átta manna áhöfn og tvo blaðamenn. Farmurinn er táknræn hjálpargögn, svo sem leikföng, hljóðfæri, kennslubækur, fiskinet og gervifætur. Áætlað er að ferðin taki 36 stundir.

Meðal þeirra, sem eru um borð, er  Reuven Moshkovitz, 82 ára maður sem lifði af helförina. Sagði hann við AFP fréttastofuna, að hann teldi það skyldu sína að fara þessa ferð og mótmæla kúgun á svo mörgu fólku, þar á meðal 800 þúsund börnum á Gasasvæðinu.   

Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur sagt að Ísraelsher muni stöðva ferðir allra skipa sem nálgast Gasa.

Ísraelsmenn sættu alþjóðlegri fordæmingu í maí þegar sérsveitarmenn fóru um borð í skip á vegum tyrkneskra samtaka, sem ætluðu að flytja hjálpargögn til Gasa. 9 Tyrkir voru skotnir til bana.

Skipverjar veita til blaðamanna.
Skipverjar veita til blaðamanna. Reuters
mbl.is