Mega kaupa ódýrari áskrift að enska boltanum

Enska úrvalsdeildinni nýtur mikilla vinsælda.
Enska úrvalsdeildinni nýtur mikilla vinsælda. Reuters

Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að það sé ekki ólöglegt fyrir einstaklinga í Bretlandi að kaupa áskrift að erlendum sjónvarpsstöðvum til að horfa á útsendingar frá ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Þetta er áfangasigur fyrir breska veitingakonu sem krafðist þess að fá að sýna frá leikjum í ensku úrvalsdeildinni með því að nota sjónvarpskort frá erlendri sjónvarpsstöð.

Karen Murphy var gert að greiða 8.000 pund (um eina og hálfa milljón kr.) í sekt fyrir að nota ódýrari grískan sjónvarpsmóttakara á kránni sem hún rekur í Portsmouth. Hún var sökuð um að hafa brotið reglur um sýningarrétt. Hún fór í framhaldinu með málið fyrir Evrópudómstólinn.

Talið er að úrskurðurinn muni mögulega leiða til þess að knattspyrnuunnendur geti horft á leiki í deildinni á lækkuðu verði.

Dómstólinn segir að stjórnendur ensku úrvalsdeildarinnar geti ekki bannað fólki að leita að betri áskriftarkjörum hjá erlendum sjónvarpsstöðvum en BSkyB bjóði í Bretlandi, en fyrirtækið greiddi rúman einn milljarð punda fyrir sjónvarpsréttindin að ensku úrvalsdeildinni. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Þar segir að Evrópudómstóllinn segi að bann við innflutningi, sölu eða notkun á erlendum sjónvarpsmóttökurum sé þvert á frelsi manna til útvega og sækjast eftir þjónustu.

Fréttin á vef Guardian.

Fréttin á vef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina