Varð vitni að fyrsta morði Breiviks

Breivik við réttarhöldin í dag.
Breivik við réttarhöldin í dag. NTB SCANPIX

Öryggisvörður og skipstjóri ferjunnar sem sigldi til Úteyjar báru vitni við réttarhöldin yfir Anders Behring Breivik í dag. Þeir lýstu því hvernig Breivik blekkti þá til að leyfa honum að sigla út í eyna þann 22. júlí í fyrra en þar myrti hann 69 manns.

„Maður klæddur í lögreglubúning hefur ákveðið vald,“ sagði öryggisvörðurinn Simen Bræden Mortensen. Það var í hans verkahring þann 22. júlí síðasta sumar að tryggja að ekkert væri grunsamlegt við þá sem ætluðu að sigla til Úteyjar, þar sem sumarbúðir ungmennahreyfingar Verkamannaflokksins voru haldnar. Mortensen lýsti því hvernig Breivik hefði útskýrt fyrir honum að för hans út í eyna tengdist sprengingunni í stjórnarráðsbyggingunni skömmu áður. Væri um að ræða venjubundna varúðarráðstöfun.

Mortensen viðurkenndi að honum hefði þótt undarlegt að sjá einkennisklæddan lögreglumann stíga úr grárri Fiat-sendibifreið í stað hefðbundins lögreglubíls en grunsemdirnar hurfu fljótt eftir að Breivik sýndi honum falsað skírteini með merki norsku öryggislögreglunnar (PST). „Ég hélt að þetta væri alvöru lögregluskírteini.“

Eftir að Mortensen hafði hleypt Breivik í gegn fékk fjöldamorðinginn að stíga um borð í ferjuna MS Thorbjørn. Hún hafði legið við bryggju í Útey í kjölfar sprengingarinnar í stjórnarráðsbyggingunni en var send sérstaklega eftir lögregluþjóninum sem sagðist þurfa að komast út í eyna.

Telur sig hafa breytt rétt

Jon Olsen, skipstjóri ferjunnar, lýsti því hvernig hann hjálpaði Breivik að bera kassa sem í voru skotfæri, en Breivik sagði að kassinn geymdi sprengjuleitarútbúnað. Olsen lýsti því einnig þegar hann flúði í ferjunni eftir að Breivik hóf skothríðina. Þá var Breivik búinn að myrða sambýliskonu hans, Monicu Bøsei sem stjórnaði starfseminni á Útey og var kölluð „mamma Útey“, og hann vissi ekki um afdrif dóttur sinnar, sem var stödd á eynni.

„Ég eyði megninu af tíma mínum í að spyrja mig hvort ég hefði getað gert eitthvað öðruvísi. Í hvert skipti kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég hafi breytt rétt,“ sagði Olsen við réttarhöldin. Hann sagði Breivik ekki hafa hagað sér undarlega. „Lögreglubúningurinn og allt annað gaf til kynna að allt væri í lagi.“

Eftir að Olsen hjálpaði Breivik að bera kassann með skotfærunum úr ferjunni varð hann vitni að því þegar Breivik skaut til bana fyrsta fórnarlambið, öryggisvörðinn og lögregluþjóninn Trond Berntsen. Olsen á erfitt með að muna hvort að hann hafi séð Breivik, aðeins nokkrum sekúndum síðar, myrða Bøsei. „Ég hélt að þetta væri einhvers konar æfing, en aftur á móti taldi ég að ég hefði verið látinn vita,“ sagði Olsen. Hann hljóp á brott og eftir nokkuð stóran krók endaði hann aftur við bryggjuna. Hann fór um borð í MS Thorbjørn og sigldi burt ásamt nokkrum ungmennum sem höfðu leitað skjóls í ferjunni. Hann segist hafa orðið að sigla bátnum burt, langt frá byssukúlum Breiviks.

„Það var alveg hljóðlátt. Ég hélt að innan skamms myndi fjöldi þyrla fljúga yfir okkur og að fjörðurinn myndi fyllast af bátum og blikkandi ljósum en nei, ekkert,“ sagði Olsen.

Breivik gekk óáreittur um eyna í yfir klukkustund og myrti ungmenni áður en hann var handtekinn. Eftir að Olsen var sagt að dóttir hans væri á lífi aðstoðaði hann við björgunaraðgerðir með því að sigla með særða og látna yfir á fastalandið.

Fölsuðu lögregluskilríkin sem Breivik bar um háls sér.
Fölsuðu lögregluskilríkin sem Breivik bar um háls sér. NTB SCANPIX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert