Þóttist vera að veiða og var kærður

Wikipedia

Þýskur fjölskyldufaðir ákvað að reyna að ganga í augun á börnunum sínum nýverið þegar fjölskyldan var á ferðalagi um Austurríki. Fjölskyldan hafði þá nýverið áð hjá stöðuvatni í Kufstein-héraði og ákvað maðurinn, Alexander Donninger, að telja börnunum trú um að hann væri mikil veiðimaður.

Samkvæmt frásögn þýska blaðsins Die Welt í dag fór hann í þeim tilgangi í næstu fiskbúð og keypti tvo frosna silunga. Hann festi þá síðan við línu og lét þá liggja um stund í vatninu þar til þeir voru þiðnir.

Vegfarandi varð hins vegar var við aðfarirnar og tilkynnti hann til yfirvalda sem ákærðu hann fyrir veiðar í leyfisleysi. Hann neyddist því til að viðurkenna fyrir bæði yfirvöldum og börnunum sínum að hann hefði verið að ljúga um veiðimennskuna.

Hins vegar hafa yfirvöld í Kufstein-héraði ekki viljað leggja trúnað á frásögn Donningers og hafa því ekki dregið til baka ákæruna um veiðar í leyfisleysi og gæti hann fengið hálfs árs fangelsisdóm ef hann verður fundinn sekur eða háa sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert