Tölvuþrjótar ráðast á NY Times

AFP

Kínverskir tölvuþrjótar hafa ítrekað brotist inn í tölvukerfi bandaríska dagblaðsins The New York Times á undanförnum mánuðum, en það greinir sjálft frá þessum árásum.

The New York Times segir að árásirnar hafi hafist í tengslum við umfjöllun blaðsins um að fjölskylda kínverska forsætisráðherrans Wens Jiabaos hafi safnað miklum auðævum.

Hakkararnir eru sagðir hafa beitt aðferðum sem tengist kínverska hernum, en meðal skotmarka þeirra voru tölvupóstar blaðamannsins sem skrifaði umrædda frétt.

Varnarmálaráðherra Kína sagði í samtali við blaðið að tölvuárásir séu ölöglegar samkvæmt kínverskum lögum.

Blaðið segir að tölvuþrjótarnir hafi fyrst náð að brjóta sér leið inn í tölvukerfið í september, eða um það leyti þegar fréttin um Wen var við það að verða tilbúin til birtingar.

Í fréttinni kom fram að ættingjar ráðherrans hefðu safnað a.m.k. um 2,7 milljörðum Bandaríkjadala í gengum viðskiptasamninga. Wen var aftur á móti ekki sakaður um að hafa gert nokkuð ólöglegt. Fréttinni var hins vegar vísað á bug og talað um rógsherferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert