Þora ekki lengur að borða í skólanum

Foreldrar syrgja börn sín sem létust eftir að hafa borðað …
Foreldrar syrgja börn sín sem létust eftir að hafa borðað skólamáltíð AFP

Þúsundir indverskra skólabarna neita að snæða í máltíðir í skólum sínum í Bihar-héraði eftir að 22 börn létust eftir að hafa borðað hádegismat í skóla sínum. Reyndist maturinn innihalda skordýraeitur.

Yfirvöld í héraðinu reyna að sannfæra óttaslegna nemendur og foreldra þeirra um að óhætt sé að borða matinn í skólunum en rannsókn stendur yfir á málinu. Skólastjórans er nú leitað en hann flúði eftir að málið kom upp.

Börnin 22, á aldrinum fjögurra til tólf ára, létust eftir að hafa borðað máltíð sem samanstóð af linsubaunum, grænmeti og hrísgrjónum í þorpsskóla í héraðinu á þriðjudag. Enn eru 30 börn á sjúkrahúsi vegna matareitrunar í héraðsborginni Patna og borginni Chhapra. Rannsókn á matnum hefur leitt í ljós að skordýraeitur var í matnum.

Samkvæmt upplýsingum frá héraðsstjórninni hafa börn víðsvegar í héraðinu neitað að borða mat sem borinn er fram í skólum og henda honum beint í ruslið þrátt fyrir að reynt hafi verið að sannfæra þau um að atvikið muni ekki endurtaka sig. Svo virðist sem foreldrar hafi beðið börnin um að snerta ekki við matnum sem borinn er fram í skólum.

Héraðsstjórnir á Indlandi bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir í ríkisreknum skólum landsins og er talið að um 120 milljónir barna nýti sér þá þjónustu. Bihar er eitt af fjölmennustu og um leið fátækustu héruðum Indlands. Menntamálayfirvöld sjá þetta sem leið til þess að fá börn til að mæta í skóla en tæplega helmingur lítilla barna á Indlandi þjáist af vannæringu. Hins vegar er ekki óalgengt að börnin veikist af matnum meðal annars vegna skorts á hreinlæti í eldhúsum og lélegs hráefnis. Yfirvöld hafi krafist þess af kennurum og kokkum í skólum héraðsins að smakka matinn áður en þeir bjóða börnum upp á hann.

Við húsleit á heimili skólastjórans, Meena Kumari, fundust þeir brúsar með skordýraeitri, baunir, grænmeti og hrísgrjón sem var notað í skólamáltíðir. Kumari hefur hins vegar ekki fundist en hún flúði úr þorpinu þegar börnin veiktust eftir matinn á þriðjudag. Fjölmiðlar á Indlandi hafa einnig greint frá því að jafnvel megi rekja eitrunina til skemmdrar olíu sem notuð var við eldamennskuna. Á kokkurinn að hafa kvartað við skólastjórann um að skrýtin lykt væri af olíunni.

30 börn eru enn fárveik á sjúkrahúsi eftir að hafa …
30 börn eru enn fárveik á sjúkrahúsi eftir að hafa borðað hádegismat í skóla sínum á þriðjudag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert