Castro framdi sjálfsvíg

 Fangelsisyfirvöld hafa staðfest að Ariel Castro, sem rændi, pyntaði og nauðgaði þremur konum í um áratug á heimili sínu í Ohio í Bandaríkjunum, hafi framið sjálfsvíg en hann fannst látinn í klefa sínum í nótt.

JoEllen Smith, talskona fangelsismálastofnunar Ohio segir að ekki leiki vafi á að um sjálfsvíg hafi verið að ræða en hann hengdi sig.

Spurningar hafa kviknað um hvernig Castro hafi getað framið sjálfsvíg ef jafn grannt var fylgst með honum og fangelsismálayfirvöld hafa haldið fram. Samkvæmt þeim var Castro einn í klefa en fangavörður leit inn til hans á hálftíma fresti.

Smith neitar að gefa upp nánari upplýsingar um andlát Castros annað en að réttarmeinafræðingur væri búinn að skoða líkið og von væri á frekari upplýsingum innan skamms.

Castro var fundinn sekur um að hafa rænt Michelle Knigth, Amöndu Berry og Ginu DeJesus þegar þær voru 20, 16 og 14 ára og haldið þeim föngnum. Castro var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir brot sín en hann samdi við saksóknara um að lýsa yfir sekt gegn því að ekki yrði farið fram á dauðarefsingu.

Nágrannar Castros telja að hann hafi jafnvel gert stúlkunum sem hann beitti ofbeldi greiða með því að fremja sjálfsvíg.

Ariel Castro
Ariel Castro HO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert