Vita hver böðullinn er

AFP

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) veit hver „John“ sem tók blaðamennina James Foley og  Steven Sotloff af lífi. Þetta kom fram í gærkvöldi í máli James Comey, yfirmanns FBI á fundi með blaðamönnum.

Bandaríkjaher hélt árásum áfram á bækistöðvar Ríki íslam í Sýrlandi í gærkvöldi og nótt. Í gærkvöldi greindi forsætisráðherra Íraks frá því að hryðjuverkaárásir væru í undirbúningi á neðanjarðarlestarkerfi Parísar og borga í Bandaríkjunum.

Comey segir að hann telji að FBI hafi tekist að finna út hver böðull bandarísku blaðamannanna og breska hjálparstarfsmannsins, David Haines er. Hann neitaði að gefa upp hver maðurinn væri né heldur hvaðan hann væri. 

Orðrómur hefur verið uppi um að „John“ sé breskur og frá Lundúnum en utanríkisráðherra Bretlands, Philip Hammond, sagði fyrr í vikunni að rannsókn á því hver maðurinn væri miðaði vel áfram. 

Einhverjir breskir fjölmiðlar hafa þegar nafngreint John og segja að hann heiti Abdel-Majed Abdel Bary og sé 23 ára gamall rappari sem fór frá London í fyrra til þess að berjast með liðsmönnum ISIS.Í síðustu viku játaði faðir hans, Adel Abdel Bary, samsæri um að myrða Bandaríkjamenn og að hafa átt aðild að hryðjuverkaárásum al-Qaeda í Kenía og Tansaníu sem kostuðu 224 lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert