Býður við rasisma í samfélaginu

Frá mótmælum í New York gegn þeirri ákvörðun að ákæra …
Frá mótmælum í New York gegn þeirri ákvörðun að ákæra ekki lögreglumanninn sem tók Erik Garner hengingartaki með þeim afleiðingum að hann lést.. AFP

Mótmælaalda hefur gengið yfir Bandaríkin undanfarnar vikur í kjölfar þess að hvítir lögreglumenn í Ferguson, New York og víðar hafa ekki þurft að sæta neinni refsingu fyrir að drepa óvopnaða blökkumenn. Atburðirnir hafa orðið til þess að draga kynþáttaólgu í landinu aftur upp á yfirborðið. 

Harðvítug mótmæli brutust út í St. Louis í Missouri eftir að Darren Wilson, hvítur lögreglumaður, skaut Michael Brown, óvopnaðan svartan unglingspilt, til bana í úthverfinu Ferguson sem hann grunaði um að hafa stolið sígarettum úr stórmarkaði. Mótmælin dreifðust víða um Bandaríkin eftir að kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að Wilson yrði ekki ákærður fyrir drápið.

Nú í vikunni hefur verið mótmælt í New York eftir að í ljós kom að hvítur lögreglumaður sem tók Erik Garner, annan óvopnaðan blökkumann, hengingartaki með þeim afleiðingum að hann lést yrði heldur ekki ákærður. Lögreglumaðurinn hafði Garner grunaðan um að selja ólöglegar sígarettur og segir hann hafa streist á móti handtöku.

Þessu til viðbótar skaut lögreglumaður í Cleveland Tamir Rice, tólf ára þeldökkan dreng, til bana fyrir tveimur vikum en hann hafði veifað loftbyssu í almenningsgarði. Nú síðast bárust fréttir af því að lögreglumaður í Phoenix hefði skotið svartan mann til bana sem hann grunaði um að stunda viðskipti með fíkniefni. Hann reyndist hafa verið óvopnaður og var drepinn fyrir framan börn sín og konu.

Með hverju morðinu eykst gremja mótmælenda í garð lögreglunnar og réttarkerfisins sem kýs að sækja lögreglumenn ekki til saka og hafa mótmælendur víðast hvar tekið upp sönginn: „Ekkert réttlæti, enginn friður, enga rasíska lögreglumenn“.

Hvítir lögreglumenn drepa 96 blökkumenn á ári

Lögreglumenn í Bandaríkjunum verða mun fleira fólki að bana á hverju ári en í öðrum vestrænum ríkjum. Í Kanada eru tilfellin á annan tug á ári en í Bretlandi var enginn skotinn til bana af lögreglu í fyrra. Í Bandaríkjunum drap lögreglan hins vegar 461 mann með „lögmætum hætti“ samkvæmt skýrslu alríkislögreglunnar FBI.

Þessi fjöldi hefur aukist undanfarin ár en það gæti þó verið vegna þess að fleiri lögregluembætti skili inn tölum en áður. USA Today greindi tölurnar og komst að þeirri niðurstöðu að á sjö ára tímabili hefðu hvítir lögreglumenn banað svörtu fólki um 96 sinnum á ári að meðaltali. 

Mótmælendur líta á tölur sem þessar og bága stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum almennt og segja að kynþáttafordómar ráði för hjá lögreglumönnum.

„Mér býður við rasismanum sem ég sé í samfélaginu. Ég er komin með nóg,“ hefur The New York Times eftir einum mótmælendanna í New York.

Árekstrar við borgara stigmagnast

Á það hefur einnig verið bent að of auðvelt sé fyrir lögreglumenn í Bandaríkjunum að komast upp með að bana fólki í starfi án þess að þurfa að svara til saka. Sanna þarf að lögreglumaður hafi beinlínis ætlað sér að svipta fólk borgaralegum réttindum sínum í slæmri trú. Hafi hann talið að líf sitt væri í hættu eða hann væri að fara eftir þjálfun sinni eru mál yfirleitt látin niður falla.

Rannsókn sem ríkissaksóknari Bandaríkjanna hefur gert á vinnubrögðum lögreglunnar í Cleveland, þar sem hinn tólf ára gamli Tamir Rice var drepinn, og birt var á fimmtudag bendir til þess að lögregluþjónar beiti reglulega harkalegu ofbeldi vegna ófullnægjandi þjálfunar og eftirlits. Þannig verði þeir þess oft valdandi að árekstrar við borgara stigmagnist.

Rætt hefur verið um að lögregluþjónar ættu að ganga um með myndavél utan á sér þegar þeir eru að störfum og hefur Barack Obama forseti meðal annars kallað eftir því. Þær myndu ekki endilega upplýsa mál fyllilega í hvert skipti en vísbendingar er um að árekstrum á milli lögreglu og borgara myndi fækka með þeim.

Fólk umber frekar glæpi en stofnun sem hatar það

Blaðamaðurinn Jamelle Bouie skrifar í grein á veftímaritinu Slate að vandamálið sé ekki endilega ofbeldi lögreglu heldur skyndileg valdbeiting hennar. Fórnarlömbin hafi aldrei haft möguleika á að bregðast við. Lögreglan mæti á staðinn með vopnin á lofti tilbúin til að drepa. Nefnir hann fjölda dæma um dráp lögreglumanna á borgurum máli sínu til stuðnings til viðbótar við þau sem hafa komist í hámæli undanfarið.

Þó að litið sé fram hjá því að lögregla tortryggi frekar svarta en hvíta og eftirlit hennar sé of strangt, sérstaklega í hverfum blökkumanna og fólks frá Rómönsku Ameríku, hafi hún of mikið vald til þess að beita vopnum án þess að henni sé ógnað alvarlega. Lögreglumenn ætlist einnig til þess að borgararnir hlýði skipunum skilyrðislaust, óháð aðstæðum.

Í kjölfarið á ákvörðunum kviðdóma í Ferguson og New York hafi yfirvöld hvatt mótmælendur til að virða málsmeðferð réttarkerfisins. Bouie bendir hins vegar á að virðingin gangi í báðar áttir: Umberi lögregluyfirvöld slæma lögreglumenn sem beiti ofbeldi í of ríkum mæli glati lögreglan virðingu borgaranna.

„Í besta falli skapar það samfélög þar sem borgararnir neita að vinna með lögreglunni, þar sem þeir eru frekar tilbúnir að umbera glæpi en að vinna með stofnun sem leggur fæð á þá og kemur fram við þá eins og þeir séu ekki menn. Í versta falli springur það upp í ljósum logum þegar fólk kemur að þolmörkum sínum og gerir uppreisn gegn þeirri óopinberu reglu að líf þeirra skipti ekki máli,“ segir Bouie.

Fyrri fréttir mbl.is:

Skotinn með pillur en ekki byssu

Þúsundir mótmæltu í New York

Lögreglan geti drepið af hvaða ástæðu sem er

Lést eftir hengingartak lögreglu

Skutu drenginn af þriggja metra færi

Þjóðvarðliðar voru kallaðir út í kringum mótmæli í Ferguson í …
Þjóðvarðliðar voru kallaðir út í kringum mótmæli í Ferguson í síðustu viku. AFP
Mótmælendur í Cleveland krefjast þess að morðunum sloti. Þar skaut …
Mótmælendur í Cleveland krefjast þess að morðunum sloti. Þar skaut lögreglumaður tólf ára gamlan dreng í almenningsgarði. Sést hafði til hans veifandi byssu sem óvíst var hvort að væri ekta. Hún reyndist síðan vera loftbyssa. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert