Skutu fólk og brenndu lifandi

Hermenn frá Tsjad að störfum við landamæri Nígerí uog Kamerún. …
Hermenn frá Tsjad að störfum við landamæri Nígerí uog Kamerún. Hersveitir frá fjórum löndum hafa sameinast í baráttunni gegn Boko Haram. AFP

Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram skutu til bana fjölmarga þorpsbúa sem reyndu að flýja þá með því að stökkva ofan í stöðuvatn um helgina. Jafnframt brenndu þeir marga lifandi.

Vitni sagði frá þessu í dag í samtali við AFP fréttastofuna. Nígeríski herinn og yfirvöld í landinu hafa staðfest að á föstudaginn hafi liðsmenn samtakanna ráðist á þorp á eyjunni Karamga sem er í Tsjad stöðuvatninu.

Hersveitir nígeríska hersins voru í þorpinu er liðsmenn Boko Haram komu á eyjunna en náðu ekki að verjast þeim. Uma Yerima, nígerískur veiðimaður sem býr á eyjunni staðfesti að Boko Haram hafi komið hersveitunum á óvart. Gífurlegt mannfall var innan hersins. 

„Þegar að þeir voru búnir með hermennina réðust þeir með byssum á íbúana,“ sagði Yerima í samtali við AFP. Bætti hann því við að hann væri einn þeirra heppnu sem náði að flýja. 

„Sumir reyndu að flýja með því að stökkva ofan í vatnið en byssumenn stóðu á bakkanum og skutu þá,“ sagði Yerima. Sagði hann að mennirnir hafi skotið alla þá sem komu upp úr vatninu til þess að anda. „Þeir kveiktu í öllu þorpinu og hófu skothríð. Margir íbúar voru brenndir lifandi í húsum sínum.“

Yerima sagði að hann hafi náð að fela sig í háu grasi við bakka stöðuvatnsins. 

Samkvæmt frétt AFP hófst árásin stuttu fyrir sólarupprás. Að sögn Yerima létu mennirnir öllum illum látum til hádegis en létu sig hverfa þegar að herþotur hófu loftárásir á svæðið. Sagði hann jafnframt að ómögulegt sé að meta hversu margir hafi látið lífið í árásinni. Telur hann þó að fjöldinn sé gífurlega hár. Sá hann einnig árásarmennina ræna fjölmörgum konum og börnum er þeir flúðu. 

Í febrúar sameinuðust hersveitir Nígeríu, Níger, Tsjad og Kamerún í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum. Sameinaður her landanna hefur náð góðum árangri í baráttunni við hryðjuverkamennina. 

Rúmlega 13.000 manns hafa látið lífið í átökum tengdum Boko Haram síðan 2009, mestmegnis í norður Nígeríu. Árið 2013 fóru átökin þó að breiðast út til nágrannaríkjanna. 

Nýr forseti Nígeríu Muhammadu Buhari tekur til starfa 29. maí. Hann hefur heitið því að berjast gegn Boko Haram með betri árangri en forveri sinn, Goodluck Jonathan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert