Kölluðu forsetann morðingja

Þúsundir manna söfnuðust saman úti á götum Ankara, höfuðborgar Tyrklands í dag til þess að lýsa vanþóknun á ríkisstjórninni og minnast þeirra 95 sem létu lífið í tvöfaldri sprengjuárás í borginni í gærmorgun.

Forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, lýsti yfir þjóðarsorg næstu þrjá dagana og er flaggað í hálfa stöng um allt land.

„Sprengja í hjörtum okkar“ var forsíðufyrirsögn tyrkneska dagblaðsins Hurriyet í morgun.

Mörg þúsundir mótmælenda söfnuðust saman á Sihhiye torgi í miðborg höfuðborgarinnar er torgið er nálægt vettvangi árásanna. Margir mótmælendur kenndu forseta landsins, Recep Tayyip Erdogan um sprengjuárásirnar og kölluðu hann morðingja.

Erdogan fordæmdi árásirnar í yfirlýsingu í gær og aflýsti ferð sinni til Túrkmenistan. Hann á þó eftir að ávarpa þjóð sína vegna árásanna.

Í dag var greint frá því að 95 hafi látið í sprengjuárásinni en sprengjurnar tvær sprungu rétt eftir klukkan 10 í gærmorgun að staðartíma. Þar að auki eru 508 særðir. Af þeim eru 160 enn á sjúkrahúsi og 19 á gjörgæsludeildum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert