Flokkur Aung San Suu Kyi með 70%

Allt bendir til þess að flokkur Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma, hafi fengið yfir 70% atkvæða í kosningunum sem fram fóru í landinu í gær.

Kosningarnar eru þær frjálsustu og lýðræðislegustu í landinu í 25 ár, eða frá árinu 1990 þegar flokkur hennar, Þjóðarbandalag um lýðræði (NLD), sigraði með miklum yfirburðum en herforingjastjórnin ógilti síðan kosningarnar til að hindra að hann kæmist til valda. Næstu tuttugu árin var Suu Kyi haldið á bak við lás og slá eða í stofufangelsi í alls fimmtán ár en hún var að lokum látin laus í desember 2010.

„Við erum með meira en 70% sæta á þinginu út um allt land en kjörnefndin hefur ekki enn staðfest það formlega,“ segir talsmaður flokksins, Win Htein, í samtali við AFP.

Aung San Suu Kyi ætlar að fara fyrir ríkisstjórn landsins en hún segir að ekkert í stjórnarskránni sé því til fyrirstöðu að hún fari fyrir ríkisstjórninni.

Í stjórnarskránni er hins vegar ákvæði sem kemur í veg fyrir að Suu Kyi geti gefið kost á sér í embætti forseta sem á að fara fyrir stjórninni. Þar er kveðið á um enginn megi bjóða sig fram ef hann á maka eða börn með erlent ríkisfang. Talið er að herforingjastjórnin hafi sett ákvæðið í stjórnarskrána til að koma í veg fyrir forsetaframboð Suu Kyi sem á tvo breska syni. Forsetinn er kjörinn á þinginu í flóknum kosningum sem gætu tekið nokkrar vikur. Þrír verða í framboði, einn þeirra tilnefndur af neðri deild þingsins, annar af efri deildinni og sá þriðji af ókjörnum fulltrúum hersins sem skipa 25% sætanna á þinginu.

Aung San Suu Kyi
Aung San Suu Kyi AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert