Munu geta valið forsetann

Samkvæmt kjörstjórn Búrma hlaut Þjóðarbandalag um lýðræði (NLD), flokkur stjórnarandstöðuleiðtogans Aung San Suu Kyi, 369 af 664 þingsætum í nýafstöðnum kosningum. Þetta þýðir að flokkurinn mun geta valið næsta forseta landsins, en stjórnarskráin útilokar að það verði Suu Kyi.

Um er að ræða stórsigur fyrir NLD og endalok áratuga valdatíð herforingjastjórnarinnar. Í framhaldinu mun reyna á samstarfsvilja stríðandi fylkinga en herinn á ennþá fjórðung þingsæta og ræður lögum og lofum í lykilráðuneytum.

Val á forseta fer fram í janúar nk. Í kjöri verða einn frambjóðandi tilnefndur af neðri deild þingsins, annar tilnefndur af efri deildinni og þriðji af fulltrúum hersins. Sem fyrr segir er útilokað að Suu Kyi verði í framboði en samkvæmt stjórnarskránni eru þeir ekki kjörgengir sem eiga maka eða barn með erlent ríkisfang.

Stuðningsmenn NLD fagna sigrinum.
Stuðningsmenn NLD fagna sigrinum. AFP

Talið er að ákvæðið hafi verið sett í stjórnarskrána gagngert til að koma í veg fyrir að Suu Kyi kæmist í forsetastól. Hún sagði í aðdraganda kosninganna að það gilti einu; færi flokkur hennar með sigur af hólmi yrði hún yfir forsetanum.

BBC hefur eftir Suu Kyi að kosningarnar hafi að mestum hluta verið lýðræðislegar. Þó er ljóst að hundruð þúsunda fengu ekki að kjósa, meðal annarra minnihluti Rohingya. Núverandi forseti, Thein Sein, sem er æðsti yfirmaður hersins, segir að hann muni virða niðurstöðu kosninganna og starfa með nýju ríkisstjórninni.

Kona stillir sér upp við graffítílistaverk af Suu Kyi.
Kona stillir sér upp við graffítílistaverk af Suu Kyi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert