Loftmengur dregur milljónir til dauða

Flestir láta lífið í Kína og á Indlandi. Þessi ljósmynd …
Flestir láta lífið í Kína og á Indlandi. Þessi ljósmynd var tekin í Peking í Kína. AFP

Árlega láta 5,5 milljónir manna lífið fyrir aldur fram vegna loftmengunar í heiminum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn.

Flestir látast í Kína og á Indlandi. Orsökin er svifrik, eða útblástur smárra agna, frá orkuverum, verksmiðjum útblæstri bifreiða og vegna brennslu á kolum og viði, að því er segir í skýrslunni Global Burden of Disease Project.

Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins. Haft er eftir vísindamönnum sem tóku þátt í rannsóknini, að skýrslan sýni hversu langt stjórnvöld eigi í land með að grípa til aðgerða til að bæta loftgæði og þar með lífsgæði íbúa. Einnig segir að menn þurfi að bregðast hratt við. 

Vísindamaðurinn Dan Greenbaum, sem starfar hjá Health Effects Institute í Boston í Bandaríkjunum, segir að á mjög slæmum degi geti svifryksmengun mælst yfir 300 míkrógrömm á rúmmetra í Peking, höfuðborg Kína, eða í Nýju Delí, höfuðborg Indlands. Talan ætti í raun að vera á bilinu 25 eða 35 míkrógrömm á rúmmetra, og því ljóst að tölurnar eru langt yfir heilsuverndarmörkum.

Fram kemur á vef Umhverfisstofunar, að áhrif svifryks á heilsu fólks sé að mjög miklu leyti háð stærð agnanna. Fínar agnir séu heilsufarslega mun hættulegri en þær grófu, en agnir minni en 10 míkrómetrar eigi auðveldara með að ná djúpt niður í lungun og geti því safnast þar fyrir.

„Þegar svo langt er komið, fara áhrifin alfarið eftir því hversu lengi og hversu oft persónan andar að sér menguðu lofti og hvort hættuleg efni eru í rykinu eða loða við það, t.d. þungmálmar eða PAH (fjölarómatísk vetniskolefni). Almenningur finnur  þó mismikið fyrir áhrifum svifryks en aldraðir, börn og þeir sem eru með undurliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert