Í myrkrinu hefjast samsæriskenningarnar

Åsne Seierstad, höfundur bókarinnar Einn af okkur um fjöldamorðingjann Anders …
Åsne Seierstad, höfundur bókarinnar Einn af okkur um fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik, á heimili sínu í Ósló. Yaniv Cohen

Norski rithöfundurinn Åsne Seierstad hefur skrifað rækilega greiningu á Anders Behring Breivik og ógnarverkum hans í Noregi 22. júlí 2011 þegar hann myrti 77 manns. „Ég trúi á staðreyndir,“ segir hún í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. „Ef eitthvað er skilið eftir í skugga eða myrkri, ef eitthvað er óskýrt, fer orðrómurinn af stað og samsæriskenningarnar.“

Með þessu vísar Seierstad til þess að Breivik hafi framið ódæðisverk í sín í krafti öfgaboðskapar sem hann vilji breiða út gegn útlendingum og norskum lífsstíl. Með því að afhjúpa hugmyndir hans og gerðir og benda á staðreyndir komist ranghugmyndir síður á flug.

Seierstad er væntanleg til Íslands og kemur fram á höfundakvöldi í Norræna húsinu á þriðjudag, 1. mars, klukkan 19.30 til að ræða bókina, Einn af okkur, sem nú kemur út á íslensku í þýðingu Sveins H. Guðmarssonar.

Seierstad hefur skrifað bækur frá ýmsum átakasvæðum og er sennilega þekktust fyrir bókina Bóksalinn í Kabúl, sem kom út á íslensku á sínum tíma. Hún var fengin til að fjalla um ódæðisverk Breiviks fyrir bandaríska tímaritið Newsweek og fjallaði í framhaldi af því um réttarhöldin yfir honum fyrir tímaritið.

„Ég ætlaði mér bara að skrifa eina grein fyrir Newsweek um upphaf réttarhaldanna, ekki fjalla um allar tíu vikurnar,“ segir hún. „En þegar ég var byrjuð að fylgjast með gat ég ekki annað en haldið áfram og gerði mér grein fyrir að ég yrði að kafa dýpra ofan í þetta mál. Ég fór líka að velta fyrir mér hvers vegna ég þyrfti alltaf að fara þvert yfir heiminn til að fjalla um harmleiki, átök og stríð annarra þjóða þegar þetta gerðist í götunni heima - því að hann bjó í raun og veru í götunni minni um tíma.“

Bókinni einn af okkur var líkt við einhverjar þekktustu bækur tveggja helstu rithöfunda Bandaríkjanna á síðustu öld, Með köldu blóði eftir Truman Capote og Söngur böðulsins eftir Norman Mailer, í umsögn í bandaríska dagblaðsins The New York Times.

Seierstad segir ótrúlegt hvernig bókinni hafi verið tekið í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hún hafi lagt mikla vinnu í bókina, ekki síst stílinn. „Allt er mjög jarðbundið,“ segir hún. „Viðfangsefnið er svo dramatískt að það varð að hafa orðin blátt áfram, nánast eins og við lærðum í gömlu sögunum, þótt ég hafi ekki haft þær í huga, eins og Snorri Sturluson lýsti hlutunum - svo fór hann hingað, drap þennan, svo fór hann þangað - án þess að blanda sínum tilfinningum í frásögnina.“

Anders Behring Breivik leggur hönd á hjartastað í réttarhöldunum yfir …
Anders Behring Breivik leggur hönd á hjartastað í réttarhöldunum yfir honum í Ósló 2012. Breivik myrti 77 manns í Ósló og Útey 22. júlí 2011. AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert