Kallar Clinton „reiða trukkalessu“

Repúblikanar í Travis-sýslu í Texas berjast á banaspjótum þessa dagana. ...
Repúblikanar í Travis-sýslu í Texas berjast á banaspjótum þessa dagana. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Það er ekki bara Donald Trump sem skapar glundroða innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum þessa dagana. Repúblikanar í einni stærstu sýslu Texas hóta nú að stofna ný samtök ef nýr formaður tekur við embætti í sumar. Sá fór hamförum á Twitter í nótt og kallaði Hillary Clinton meðal annars „reiða trukkalessu“.

Robert Morrow var kjörinn formaður Repúblikanaflokksins í Travis-sýslu, fimmtu stærstu sýslu Texas, en það er meðal annars sýsla ríkisstjórans Gregs Abbott. Hann á að taka við embættinu í júní en hópur flokksmanna í sýslunni ætlar að berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal varaformaðurinn.

„Við munum kanna alla mögulega kosti sem til eru hvort sem það er að reyna að sannfæra hann um að segja af sér, neyða hann til að segja af sér, takmarka vald hans og möguleika á að eyða fé eða reyna að koma í veg fyrir að hann fái aðgang að gögnum eða samfélagsmiðlareikningum okkar,“ segir Matt Mackowiak, varaformaður flokksins í Travis-sýslu.

Morrow er þekktur sem strigakjaftur á Twitter og fer oft mikinn gegn því sem hann kallar „ráðandi öfl“ í flokknum. Þá er kynhneigð fólks honum oft ofarlega í huga. Þannig hefur hann sagt um Marco Rubio, öldungadeildarþingmann frá Flórída og einn frambjóðendanna í forvali flokksins fyrir forsetakosningarnar, að hann sé „mjög líklega hommamaður sem gifti sig“. Þá hefur hann ítrekað haldið því fram að Rick Perry, fyrrverandi ríkisstjóri flokksins í Texas, sé tvíkynhneigður á laun.

Kosninganóttinni eftir ofurþriðjudaginn í gær eyddi Morrow að mestu leyti á Twitter að svívirða menn og málefni á þessum nótum. Fyrir utan að endurtaka fyrri fullyrðingar sínar um kynhneigð Perry lét Morrow ýmislegt flakka um getnaðarlim Bills Clinton, fv. forseta og eiginmanns Hillary, fullyrti að nokkrir meðlimir Bush-fjölskyldunnar ættu að sitja í fangelsi og kallaði Hillary „reiða trukkalessu“ (e. angry bull dyke).

Andstaða samflokksmanna hans hefur vakið reiði Morrow sem sakar varaformanninn um að svíkja flokkinn. Vísar hann þar á meðal til þess að Mackowiak hafi tíst gegn Donald Trump.

„Segðu þeim að þeir geti farið í fúlan pytt,“ sagði Morrow við blaðamann Texas Tribune um samflokksmenn sína.

Mackowiak segir að hann óttist helst að Morrow taki þátt í stjórnmálum í sýslunni.

„Við erum með einstakling sem bauð sig fram sem hefur ekki í hyggju að þjóna Repúblikanaflokknum með forystuhæfileikum og tryggð. Samfélagsmiðlasíður hans eru eitthvað sem ekkert barn ætti að þurfa að sjá. Hann er alger hörmung,“ segir Mackowiak um Morrow og hótar því að stofna ný samtök repúblikana í sýslunni ef honum verður ekki komið frá.

Sjálfur hafnar Morrow því algerlega að hann sé karlremba.

„Mér líkar við fallegar konur. Ég fagna kvenlegri fegurð. Ég er eins og Donald Trump, ég elska konur,“ segir hann.

Frétt Washington af upplausninni hjá repúblikönum í Travis-sýslu

mbl.is
Félagsstarf
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, for...
Framhald uppboðs
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Bækur til sölu
Til sölu
Bækur til sölu Menntamál 1.-42. árg. ...
Skipulag
Tilkynningar
Rangárþing ytra Auglýsing um skipulags...