Obama kenndi Clinton um sigur Trump

Donald Trump og Barack Obama saman á tröppum þinghússins eftir …
Donald Trump og Barack Obama saman á tröppum þinghússins eftir að sá fyrrnefndi tók við embætti. AFP

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var sár og þungt hugsi eftir að úrslit bandarísku forsetakosninganna 2016 lágu fyrir og í ljós kom að Hillary Clinton tapaði fyrir Donald Trump. Í bók um Obama, sem sem kemur út í næstu viku, er fullyrt að hann hafi kennt Clinton um tapið.

Bókin nefnist  „Obama: The Call of History“ og er eftir Peter Baker, blaðamann New York Times. Er Obama sagður hafa dregið arfleifð sína í efa eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir, auk þess sem hann hafi litið á það sem persónulega móðgun að kjósendur völdu Trump en ekki Clinton, sem forsetinn studdi ötullega á lokaspretti kosningabaráttunnar.

„Þetta er sárt,“ á Obama að hafa sagt við starfsfólk Hvíta hússins á fundum vikurnar eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir.

Tortrygginn í garð Trump

CNN-sjónvarpsstöðin sem hefur fengið nokkra kafla bókarinnar segir Baker draga þá mynd upp að Obama hafi verið mjög tortrygginn í garð Trump og átt erfitt með að skilja af hverju kjósendur völdu hann í stað Clinton, sem hafði mun meiri reynslu af stjórnmálum. Þá segir hann Obama og nokkra ráðgjafa hans hafa kennt Clinton og þeim ákvörðunum sem hún tók í kosningabaráttunni um niðurstöðu kosninganna, sem valdið hafi forsetanum áfalli.

Hillary Clinton og Barack Obama í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2016.
Hillary Clinton og Barack Obama í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2016. AFP

„Hjá Obama og teymi hans lá hin raunverulega sök hjá Clinton,“ skrifar Baker. „Það var hún sem gat ekki komið sterkri arfleifð hans og heilbrigðum efnahag á sigurbraut. Þar skipti engu að Trump byggði svo gott sem á sömu uppskrift gegn Clinton og Obama hafði gert átta árum fyrr, er hann dró upp mynd af henni sem dæmi um spillingu hins óbreytta ástands. Hún hafi átt sök á mörgum vandamála sinna sjálf.“ 

Obama kom í veg fyrir að Joe Biden, sem var varaforseti í hans forsetatíð, gæfi kost á sér til forseta 2016 og studdi Clinton líkt og áður sagði. Segir Baker hann hafa „vaknað á kjördag þess fullviss, líkt og meirihluti Bandaríkjamanna, að hann væri ekki að afhenda kjarnorkufótbolta til Donald Trumps. Raunveruleikaþáttastjarnan var brandari. Það var ekki séns að Bandaríkjamenn myndu kjósa hann.“

Fannst fyrsti fundurinn með Trump ruglingslegur

Obama hafi því verið í Hvíta húsinu að horfa á bíómynd þegar merki um sérkennilegar kosninganiðurstöður tóku að berast. „Huh,“ á Obama að hafa sagt að því er fram kemur í æviminningum eiginkonu hans, Michelle Obama. „Úrslitin í Flórída eru eitthvað furðuleg.“

Út á við vann Obama að því að tryggja að forsetaskiptin gengju hnökralítið fyrir sig og sagði fréttamönnum eftir fyrsta fund þeirra Trump að hann hefði verið „uppörvandi“.

Persónulega hafi Obama  hins vegar, að sögn Bakers, fundist fundur þeirra „ruglingslegur“.

Þannig hélt Trump reglulega á fundinum, að því er sagði Obama ráðgjöfum sínum síðar, áfram að stýra samræðunum aftur að stærð kosningafunda þeirra. Sagði Trump að hann hefði náð að draga að mikinn mannfjölda og það hafi Obama líka geta gert, en Clinton hafi ekki getað gert slíkt hið sama.

Síðar, segir Baker, dró Obama eigin stjórnarstefnu í efa og velti fyrir sér hvort hann hefði verið of ágengur við að koma stefnumálum sínum áfram. „Hvað ef við höfðum á röngu að standa?“ á Obama að hafa spurt ráðgjafa sína á lokadögum sínum í embætti. „Kannski gengum við of langt,“ segir Baker forsetann hafa sagt og velt fyrir sér hvort hann hafi verið 10-20 árum of snemma á ferðinni.

mbl.is