Hótar að knésetja árásarmennina

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, segir að árásin í gær, sem kostaði 34 lífið, geri ekkert annað en að styrkja tyrknesk yfirvöld í baráttu sinni gegn hryðjuverkamönnum. Hann hótar því að knésetja hryðjuverkamennina.

Tyrkneskar herþotur láta nú sprengjum rigna yfir stöðvar Kúrda í norðurhluta Íraks.

Sprengjan sprakk í Guven Park í höfuðborg landsins, Ankara. 125 særðust í árásinni en enginn hefur lýst yfir ábyrgð á tilræðinu.

BBC hefur eftir innanríkisráðherra landsins, Efkan Ala að nöfn grunaðra yrðu birt í dag en heimildir herma að stjórnvöld telji að PKK, Verkamannaflokkur Kúrdistans, standi á bak við tilræðið. Skæruliðasamtökin hafa gert ítrekaðar árásir í Tyrklandi undanfarna mánuði og hið sama hefur Ríki íslams gert. 

Erdogan segir að hryðjuverkahópar séu nú að ráðast gegn almennum borgurum þar sem þeir séu að tapa í baráttunni við tyrkneska herinn.

Hann segir að Tyrkir muni nú beita rétti til sjálfsvarnar í árásum gegn þeim í framtíðinni. Hann biður þjóð sína að standa saman og ekki láta undan hryðjuverkamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert