Skýrslan aðeins toppurinn á ísjakanum

AFP

Kynferðislegt ofbeldi, barnaníð og sjálfsskaðar eru meðal þess sem fram kemur í yfir tvö þúsund skýrslum um aðbúnað flóttafólks og hælisleitenda á eyjunni Nauru sem hefur verið lekið á netið. Aðeins toppurinn á ísjakanum, segir kennari sem starfaði á eyjunni í nokkra mánuði.

Rúm­lega 1.200 hæl­is­leit­end­ur í Ástr­al­íu hafa verið flutt­ir nauðugir til Nauru, af­skekktr­ar eyju í Kyrra­haf­inu. Þar sæta þeir al­var­leg­um mann­rétt­inda­brot­um, ómannúðlegri meðferð og van­rækslu. Þrátt fyrir að teljast flóttamenn fá þeir ekki heimild til þess að setjast að í Ástralíu heldur eru sendir til Nauru. 

Frétt mbl.is: Flutt nauðug á eyjuna og brotið á þeim

Skýrslan sem Guardian birtir er yfir átta þúsund blaðsíður. Yfir helmingur tilvika sem fram koma tengjast börnum. Alls eru 1.086 tilvik tengd börnum af þeim 2.116 atvikum sem koma fram í skýrslunni. Samt sem áður eru aðeins 18% þeirra, sem eru í haldi á eyjunni á tímabilinu sem fjallað er um í atvikaskýrslunum, frá maí 2013 fram í október 2015, börn.

Meðal þess sem fjallað er um er drengur sem er hótað lífláti af vörðum og að ungar konur hafi fengið lengri sturtutíma gegn því að karlkynsverðir fengju að horfa á. Í júlí 2014 klæddi tíu ára gömul stúlka sig úr öllum fötunum og bauð hópi fullorðinna að setja fingur sína inn í leggöng hennar. Í febrúar 2015 benti ung stúlka á kynfæri sín og sagði að karl úr hópi hælisleitanda hafi skorið hana þar.

Sjálfsskaðar eru fyrirferðarmiklir í skýrslunni, til að mynda kona sem reyndi að hengja sig og stúlka sem saumaði saman á sér varirnar. Atvik sem verðir í búðunum töldu hlægileg. Börn sem þrá dauðann í stað þess að þurfa að dúsa í búðunum á eyjunni.

Myndskeið Guardian

Hælisleitendur sem koma til Ástralíu eru sendir til Nauru eða Manus-eyja í Kyrrahafinu. Lýsingar á dvölinni þar hafa áður komið fram í fjölmiðlum og er svo komið að mjög fáir reyna að komast til Ástralíu með þessum hætti enda lýsingarnar skelfilegar frá eyjunum tveimur.

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, segir að skýrslan verði rannsökuð til þess að sjá hvort í einhverjum tilvikum hafi ekki verið tekið rétt á málum. Atvikin séu aftur á móti aðeins ásakanir ekki staðreyndir og Nauru verði áfram viðkomustaður flóttafólks.

Jane Willey, sem áður starfaði sem kennari á Nauru á vegum Save the Children-mannúðarsamtakanna, kannast við eigin skrift í einhverjum tilvika í skýrslunni og það sem þar komi fram sé aðeins toppurinn á ísjakanum.

Hún segir að það að sjá andlegri heilsu barna hraka dag frá degi í búðunum sé það skelfilegasta sem hún upplifði í starfi. Þau hætti að upplifa sig sem manneskjur, aðeins bátanúmer, og sjálfsskaði er oft eina lausnin sem þau sjái. 

Hér er hægt að lesa umfjöllun Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert